Skoðun

Verð­mæta­sköpun án virðingar

Berglind Harpa Svavarsdóttir skrifar

Þrátt fyrir að innan við þrjú prósent landsmanna búi á Austurlandi, skapar svæðið vöruútflutningsverðmæti sem nemur um 240 milljörðum króna á ári. Þetta eru stórar upphæðir, verðmæti sem skipta sköpum fyrir þjóðarbúið í heild sinni. En hvað fá heimamenn til baka fyrir þá verðmætasköpun?

Við í stjórn Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi fengum greiningarfyrirtækið Analytica til að greina efnahagsumsvif Austurlands. Hægt er að nálgast skýrsluna hér.

Þær niðurstöður staðfesta það sem lengi hefur verið vitað en vantað hefur greiningargögn. Þrátt fyrir gríðarlega verðmætasköpun svæðisins skilar fjármagn sér ekki til baka í viðeigandi innviði sem standa undir þessari verðmætasköpun. Samgöngukerfið á Austurlandi, sem ber uppi mikla þungaflutninga, stendur afar illa því viðhaldi og nýframkvæmdum hefur ekki verið sinnt.

Annað landsbyggðarmál má nefna að þrátt fyrir að íbúar búi í nálægð við virkjanir greiðir stór hluti íbúa dreifbýlistaxta sem þýðir hærri orkukostnað. Hvaða sanngirni er í því? Enn fremur má nefna að sveitarfélög verða af tekjum því þau fá ekki fasteignagjöld af orkumannvirkjum í sínu landi eins og það fengi af sambærilegri atvinnustarfsemi í sínu sveitarfélagi.

Landsbyggðin í heild sinni skapar gríðarleg verðmæti sem allir landsmenn njóta góðs af. En þrátt fyrir þá staðreynd skilar fjármagn og þjónusta sér ekki til baka í samræmi við það framlag. Með því að viðhalda þessari miklu skekkju er verið að festa í sessi ósanngjarnt og miðlægt misvægi í opinberri fjárfestingu hér á landi.

Þessu verður að breyta. Áhugavert og í raun mikilvægt er að greina vöruútflutningsverðmæti allrar landsbyggðarinnar með sömu aðferðarfræði af hendi Analytica og sýna þannig svart á hvítu hve landsbyggðin er gjöful og mikilvæg í verðmætasköpun fyrir land og þjóð þrátt fyrir fámenni.

Tryggjum áframhaldandi verðmætasköpun á landsbyggðinni og virðingu í formi fjárfestinga, traustra innviða og sanngjarnrar skiptingar á tekjum þjóðarbúsins. Það er ekki mikil krafa, það er sjálfsögð réttlætiskrafa í nútímasamfélagi sem tryggir áframhaldandi verðmætasköpun og ýtir samhliða undir efnahagslega velferð allra hér á landi.

Höfundur er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.




Skoðun

Sjá meira


×