Leik lokið: Víkingur - ÍA 2-1 | Víkingar tylltu sér á toppinn

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Valur - Víkingur Besta Deild Karla Vor 2025
Valur - Víkingur Besta Deild Karla Vor 2025 vísir/Diego

Víkingur vann 2-1 gegn ÍA á Víkingsvelli í 8. umferð Bestu deildar karla. Bæði mörk Víkinga voru keimlík og markið sem þeir fengu á sig var afar klaufalegt. Víkingar tylla sér á toppinn með sigrinum en Skagamenn eru í neðsta sæti deildarinnar.

Víkingar tóku tveggja marka forystu í fyrri hálfleik, með tveimur keimlíkum mörkum. Fyrirgjöf frá hægri kantinum á fjærstöngina. Fyrra markið kom eftir aðeins níu mínútna leik, Valdimar með fyrirgjöf og Helgi Guðjónsson dempaði boltann fyrir Stíg Diljan Þórðarsson, sem skoraði sitt fyrsta mark á ferlinum.

Annað markið, á 33. mínútu, var eiginlega alveg eins en þá gaf Helgi boltann ekki eftir fyrirgjöf Valdimars heldur skoraði sjálfur. Stoðsending og mark hjá vinstri vængbakverðinum í dag.

Skagamenn höfðu lítið sýnt fram að því en skömmu eftir að hafa lent tveimur mörkum undir átti Rúnar Már stórgott skot, af svona þrjátíu metra færi, sem small í stöngina og út.

Gestirnir fengu síðan nánast gefins mark rétt fyrir hálfleik. Víkingar tóku hornspyrnu en gleymdu að láta varnarmann bíða til baka. Haukur Andri Haraldsson vann boltann og brunaði upp allan völlinn, frá teig í teig, og kláraði færið vel.

Skagamenn mættu skarpari til leiks í seinni hálfleik og baráttan inni á vellinum jafnaðist mjög. Marko Vardic fékk tvö fín tækifæri til að setja jöfnunarmarkið, en skaut rétt yfir og síðan í hliðarnetið.

Stígur Diljan fékk síðan tvö frábær tækifæri fyrir Víkinga, skapaði sér skot sjálfur sem small í báðum stöngunum en fór ekki inn, fékk síðan algjört dauðafæri fyrir opnu marki en stýrði boltanum hátt yfir.

Bæði lið fóru þannig illa með sín færi í seinni hálfleik og fleiri mörk voru ekki skoruð. Síðasta stundarfjórðunginn vörðu Víkingar forystuna vel, drápu leikinn og hirtu stigin þrjú.

Atvik leiksins

Sveinn Gísli Þorkelsson þurfti að fara af velli vegna meiðsla strax í upphafi leiks. Davíð Örn Atlason kom inn á. Blaðamaður metur sem svo að Sveinn, eða Davíð þá, hafi átt að bíða til baka í horninu. Davíð er hins vegar vanari því að vera bakvörður, ekki í miðvarðarstöðunni sem hann leysti í dag. Skokkaði bara upp í hornið og steingleymdi að hann ætti að bíða til baka.

Stjörnur og skúrkar

Jón Gísli Eyland er skúrkar Skagamanna, bar ábyrgð á manninum í báðum mörkum Víkinga.

Stígur Diljan með stjörnuframmistöðu, fyrsta meistaraflokksmarkið og óheppinn að setja ekki annað, eða jafnvel þrennu. 

Dómarar

Svakalegur hiti á hliðarlínunni allan leikinn. Jón Þór, þjálfari ÍA, fékk gult í fyrri hálfleik. Aðstoðarþjálfarar beggja liða fengu svo gult í seinni hálfleik.

Í uppbótartímanum reiddist Jón Þór og sparkaði í vatnsbrúsa, sem verðskuldaði gult spjald að mati dómara og þar af leiðandi rautt. Hann verður í banni í næsta leik.

Ótrúlegt en satt og þrátt fyrir bandbrjálaða þjálfara á hliðarlínunni var þessi leikur vel dæmdur af Vilhjálmi Alvari. Smáglæpir hér og þar sem hann missti kannski af eða dæmdi í ranga átt, en ekkert stórt sem situr eftir.

Spjöldin á þjálfarana voru verðskulduð. Mögulega hægt að setja spurningamerki við að gefa Jón Þór rautt, ekkert óeðlilegt að menn missi sig aðeins í uppbótartíma þegar liðið er að tapa.

Hefur væntanlega verið persónulegur vatnsbrúsi Vilhjálms, hann tók þessu allavega mjög illa.

Stemning og umgjörð

Allt með besta móti á heimavelli hamingjunnar. Ágætis mæting en ekki þétt setið Skagamegin í stúkunni. Borgarar á grillinu og pöbbkviss fyrir leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira