Íslenski boltinn

Tveir Vestra­menn fluttir með sjúkra­bíl eftir leik í gær

Aron Guðmundsson skrifar
Frá leik Vestra fyrr á tímabilinu
Frá leik Vestra fyrr á tímabilinu Vísir/Anton Brink

Flytja þurfti tvo leikmenn Bestu deildar liðs Vestra með sjúkrabíl úr Úlfarsárdalnum eftir leik liðsins gegn Fram í gær. 

Leiknum lauk með 1-0 sigri Fram en leikmenn Vestra sem um ræðir eru þeir Arnór Borg Guðjohnsen, sem er á láni hjá liðinu frá FH, og framherjinn stóri og stæðilegi Kristoffer Grauberg Lepik.

Arnór Borg kom inn á sem varamaður snemma í seinni hálfleik en varð fyrir því óláni að meiðast rúmum stundarfjórðungi fyrir leikslok. Nú virðist komið í ljós að hann hafi tognað illa aftan í læri. 

Kristoffer Grauberg, sem einnig kom inn á sem varamaður fékk heilahristing eftir samstuð rétt fyrir leikslok. 

„Við bíðum eftir upplýsingum með framhaldið hjá þeim, þessi meiðsli þarf að taka alvarlega og sinna vel,“ segir í færslu frá Vestra á samfélagsmiðlum.

En það berast ekki bara slæm tíðindi úr herbúðum Vestramanna. Fyrirliðinn Elmar Atli Garðarson hefur nú setið af sér tveggja mánaða bann sem hann var dæmdur í vegna veðmálaþátttöku. Elmar Atli má því snúa aftur í leikmannahóp Vestra fyrir leik liðsins gegn Stjörnunni á laugardaginn kemur. 


Tengdar fréttir

Uppgjörið: Fram - Vestri 1-0 | Frammarar stöðvuðu sigurgöngu Vestra

Fram bar sigurorð af Vestra með einu marki gegn engu þegar liðin áttust við í sjöundu umferð Bestu-deildar karla í fótbolta á Lambhagavellinum í Úlfarsárdal í dag. Það var Simon Tibbling sem skoraði sigurmark Fram úr vítaspyrnu sem Vuk Oskar Dimitrijevic nældi í. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×