Upp­gjörið: Njarðvík-Tindastóll 98-90 | Njarð­víkingar skelltu Stólunum

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Dwayne Lautier-Ogunleye var með 21 stig fyrir Njarðvík í kvöld.
Dwayne Lautier-Ogunleye var með 21 stig fyrir Njarðvík í kvöld. Vísir/Anton Brink

Njarðvíkingar minntu á sig með frábærum 98-90 sigri á Tindastól í Njarðvík í kvöld. Stólarnir höfðu unnið alla deildarleiki sína í vetur en töpuðu nú öðrum leiknum í röð eftir slæmt tap í Evrópukeppninni fyrr í vikunni.

Það voru gestirnir í Tindastól sem tóku uppkastið og komu fyrstu stigunum á töfluna. Njarðvíkingar sýndu byssurnar strax í upphafi og fóru að raða niður þristum og byggðu sér gott forskot. Eftir fyrsta leikhluta leiddi Njarðvík með níu stigum 30-21.

Tindastóll byrjaði annan leikhlutann af krafti og náði að saxa á forskot Njarðvíkinga. Í hvert sinn sem mómentið var með liði Tindastóls þá setti Njarðvík stórt skot til þess að hægja á gestunum.

Tindastóll náði að minnka muninn niður í eitt stig en þá fundu Njarðvíkingar annan gír og náði í forskot sem þeir fóru með inn í hálfleikinn. Staðan í hlé var 51-43 heimamönnum í vil.

Það var mjög jafnt með liðunum í þriðja leikhluta. Bæði lið skiptust á því að taka áhlaup. Tindastóll komst í tækifæri að jafna leikinn en þá settu Njarðvíkingar í gír og stigu skrefi framar en Skagfirðingarnir. Eftir þrjá leikhluta leiddu heimamenn 74-68.

Njarðvíkingar mættu í gír út í fjórða leikhluta og settu hvern þristinn á fætur öðrum. Njarðvíkingar náðu upp fjórtán stiga forskoti á tímabili en Stólarnir gáfust ekki upp og náðu að minnka þetta aftur niður í fjögur stig þegar lítið var eftir.

Það virkaði smá stress í heimamönnum þegar lítið var eftir en Brandon Averette steig þá upp og setti mikilvæg vítaskot niður sem gaf Njarðvíkingum andrými. Mario Matasovic komst svo inn í sendingu Tindastóls alveg í blálokin og átti frábæra troðslu sem lokaði leiknum endanlega og heimamenn fóru með átta stiga sigur 98-90.

Atvik leiksins

Það var smá stress í liði Njarðvíkur þegar Tindastóll byrjaði að saxa vel á þá undir lok leiks en Brandon Averette fór þá á vítalínuna og setti tvö víti sem róaði taugar Njarðvíkinga helling.

Stjörnur og skúrkar

Brandon Averette var frábær í liði Njarðvíkur og endaði stigahæstur með 28 stig. Hann var að hitta virkilega vel fyrir aftan þriggja stiga línuna. Dwayne Lautier-Ogunleye var einnig öflugur í liði Njarðvíkur og var með 21 stig. 

Hjá Tindastól var Adomas Drungilas gríðarlega öflugur. Hann var með 25 stig og reif niður átta fráköst að auki.

Dómararnir

Bjarki Þór Davíðsson, Jón Þór Eyþórsson og Stefán Kristinsson dæmdu þennan leik. Heilt yfir var þetta fínasta dómgæsla. Einhver nokkur atriði sem hægt væri að setja spurningarmerki við en ekkert sem hafði úrslitaáhrif.

Stemingin og umgjörð

Það var stuð og stemning í IceMar höllinni í kvöld. Það var slatti af Skagfirðingum í höllinni í dag sem var ánægjulegt að sjá. Umgjörðin hjá Njarðvíkingum er svo alltaf tipp topp.

Viðtöl

Rúnar Ingi Erlingsson er þjálfari Njarðvíkinga.Vísir/Anton

„Við fundum lausnir og ég held þetta verði lausnin áfram“

„Ég er bara ótrúlega glaður. Það er svo stutt á milli í þessu“ sagði Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkinga eftir sigurinn í kvöld.

„Við náum að búa til gott forskot með virkilega góðri spilamennsku. Við erum að ná að velja aðeins skotin fyrir þá“

„Við hleypum þeim bæði í fyrri og seinni hálfleik inn í þetta svolítið á sóknarfráköstum. Þeir voru ekki á sínum degi fyrir aftan þriggja stiga línuna en ég er bara ógeðslega glaður að ná að klára þetta“

„Við erum búnir að vera í fullt af svona leikjum þar sem við erum einhvern veginn ekki alveg nægilega sterki á svellinu svona síðustu fimm mínúturnar og við fundum lausnir og ég held að þetta verði lausnin áfram“ sagði Rúnar Ingi Erlingsson.

Arnar Guðjónsson þjálfari Tindastóls.pawel

„Þá settu þeir stór skot eða við gerðum mistök“

„Svekkjandi tap, það er hárrétt“ sagði Arnar Guðjónsson þjálfari Tindastóls eftir tapið í kvöld.

„Við byrjuðum leikinn ekki nógu vel og þar bara varð til hola sem að við náðum aldrei að komast upp úr og þegar við vorum við það að ná einhverjum tökum á leiknum þá settu þeir stór skot eða við gerðum mistök“

Tindastóll fékk tækifærin til þess að komast inn í leikinn en Njarðvíkingar settu þá stór skot og tóku skrefin fram úr Tindastól í leiðinni. 

„Mér fannst það gerast bara fimm, sex sinnum í leiknum og stundum var það þannig að mér fannst þeir gera mjög vel og önnur skipti fannst mér við gera illa og gefa þeim þetta“

Tindastóll var í Evrópuverkefni í vikunni en þrátt fyrir það vildi Arnar ekki meina að það væru nein þreytumerki á sínu liði.

„Bara ekki nein. Það er bara allt gert fyrir strákana þannig að þeim líði vel. Við bara byrjuðum leikinn ekki nógu vel og það hafði ekkert með það að gera. Við spiluðum hörku vel hérna í seinni hálfleik á köflum og margt jákvætt í því“ sagði Arnar Guðjónsson.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira