Mikilvægi frjáls flæðis fjármagns Björgvin Guðmundsson skrifar 20. desember 2007 06:00 Það hefur færst mjög í vöxt að fjárfestar færi eignarhluti sína í fyrirtækjum í erlend eignarhaldsfélög. Tilkynningar um slíkt hafa birst reglulega í Kauphöll Íslands undanfarin tvö ár. Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, hefur bent á að erlent eignarhald fyrirtækja í Kauphöllinni hefði í september síðastliðnum numið 41 prósenti og hefði aukist mikið frá sama tíma í fyrra. Sú þróun væri merki um aukna erlenda fjárfestingu hérlendis þótt ljóst væri að mikið væri um að Íslendingar geymdu eign sína í erlendum félögum. Sem dæmi geyma allir stærstu eigendur í Kaupþingi, Glitni og Landsbankanum eignarhluti sína í erlendum dótturfélögum. Athugun Markaðarins, fylgirits Fréttablaðsins um viðskipti, leiddi í ljós að sama er uppi á teningnum í stærstu félögunum sem skráð eru í Kauphöll Íslands. Erlendu félögin eru meira og minna í eigu Íslendinga. Oft er um flókin eignatengsl að ræða sem erfitt er að rekja. Exista B.V. er hollenskt félag sem skráð er fyrir næstum fjórðungshlut í Kaupþingi. Það félag er í eigu Exista á Íslandi. FL Group geymir þriðjungshlut sinn í Glitni í hollensku félagi. Samson eignarhaldsfélag á yfir fjörutíu prósent í Landsbankanum. Samson er íslenskt félag en í eigu tveggja félaga sem eru skráð á Jersey og á Kýpur. Friðrik Már Baldursson, hagfræðiprófessor í Háskólanum í Reykjavík, sagði í samtali við Fréttablaðið að töluvert væri um að eignir væru fluttar til Hollands. Augljóst væri að það stafaði af skattalegum ástæðum. Það er mikilvægt fyrir einstaklinga, hvar sem þeir búa, að geta flutt fjármagn sitt auðveldlega á milli landa. Sé það mögulegt er böndum komið á stjórnmálamenn sem í sífellu vilja hækka skatta á fólk og fyrirtæki til að standa undir misnauðsynlegum verkefnum. Ekki er óvarlegt að fullyrða að peningar nýtast fleira fólki betur til langs tíma í höndum eigenda en stjórnmálamanna. Þá er fjármagnið notað til uppbyggingar á arðbæran hátt en ekki í óþarfa gæluverkefni og atkvæðakaup þrýstihópa. Hins vegar er mikilvægt að fólk virði lög og reglur sem gilda. Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir í viðtali við Markaðinn að ekkert bendi til þess að umfang skattsvika í gegnum erlend eignarhaldsfélög hafi minnkað frá árinu 2004. Miðað við tekjur ríkissjóðs undanfarin þrjú ár gætu skattsvik í gegnum þessar erlendu tengingar numið allt að fimmtán milljörðum króna. Það jafngildir kostnaði við rekstur framhaldsskólakerfisins á síðasta ári. Íslensk stjórnvöld hafa staðið sig vel í samkeppni landa um hagstætt skattaumhverfi fyrirtækja. Mikilvægt er að halda áfram á þeirri braut og forðast allar tilraunir ríkja í Evrópu til að samræma skattastefnu landanna. Næsta skref hlýtur að vera að lækka álögur á einstaklinga. Þannig tryggjum við áfram aukna verðmætasköpun og betri lífsgæði allra og drögum úr þörf fjárfesta til að færa fjármagn sitt í erlend eignarhaldsfélög. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Björgvin Guðmundsson Mest lesið Hvenær leiddist þér síðast? Daðey Albertsdóttir,Silja Björk Egilsdóttir,Skúli Bragi Geirdal Skoðun Það er flókið að eiga næstum 500 milljarða króna á Íslandi Þórður Snær Júlíusson Skoðun Þegar rafmagn hættir að vera sjálfsagður hlutur Árni B. Möller Skoðun 5.maí Alþjóðadagur ljósmæðra Unnur Berglind Friðriksdóttir Skoðun Lýðræði og framtíð RÚV: Tími til breytinga? Erling Valur Ingason Skoðun Það er betra fyrir okkur öll að Háskóli Íslands efli fjarnám Darri Rafn Hólmarsson Skoðun Við höfum ekki efni á tvískinnungi SFS Vala Árnadóttir Skoðun Yfirfull fangelsi, brostið kerfi Guðmundur Ingi Þóroddsson Skoðun Ferðamenn: Vanmetnir skattgreiðendur í íslensku hagkerfi Þórir Garðarsson Skoðun Endurnýjun hugarfarsins Bjarni Karlsson Skoðun
Það hefur færst mjög í vöxt að fjárfestar færi eignarhluti sína í fyrirtækjum í erlend eignarhaldsfélög. Tilkynningar um slíkt hafa birst reglulega í Kauphöll Íslands undanfarin tvö ár. Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, hefur bent á að erlent eignarhald fyrirtækja í Kauphöllinni hefði í september síðastliðnum numið 41 prósenti og hefði aukist mikið frá sama tíma í fyrra. Sú þróun væri merki um aukna erlenda fjárfestingu hérlendis þótt ljóst væri að mikið væri um að Íslendingar geymdu eign sína í erlendum félögum. Sem dæmi geyma allir stærstu eigendur í Kaupþingi, Glitni og Landsbankanum eignarhluti sína í erlendum dótturfélögum. Athugun Markaðarins, fylgirits Fréttablaðsins um viðskipti, leiddi í ljós að sama er uppi á teningnum í stærstu félögunum sem skráð eru í Kauphöll Íslands. Erlendu félögin eru meira og minna í eigu Íslendinga. Oft er um flókin eignatengsl að ræða sem erfitt er að rekja. Exista B.V. er hollenskt félag sem skráð er fyrir næstum fjórðungshlut í Kaupþingi. Það félag er í eigu Exista á Íslandi. FL Group geymir þriðjungshlut sinn í Glitni í hollensku félagi. Samson eignarhaldsfélag á yfir fjörutíu prósent í Landsbankanum. Samson er íslenskt félag en í eigu tveggja félaga sem eru skráð á Jersey og á Kýpur. Friðrik Már Baldursson, hagfræðiprófessor í Háskólanum í Reykjavík, sagði í samtali við Fréttablaðið að töluvert væri um að eignir væru fluttar til Hollands. Augljóst væri að það stafaði af skattalegum ástæðum. Það er mikilvægt fyrir einstaklinga, hvar sem þeir búa, að geta flutt fjármagn sitt auðveldlega á milli landa. Sé það mögulegt er böndum komið á stjórnmálamenn sem í sífellu vilja hækka skatta á fólk og fyrirtæki til að standa undir misnauðsynlegum verkefnum. Ekki er óvarlegt að fullyrða að peningar nýtast fleira fólki betur til langs tíma í höndum eigenda en stjórnmálamanna. Þá er fjármagnið notað til uppbyggingar á arðbæran hátt en ekki í óþarfa gæluverkefni og atkvæðakaup þrýstihópa. Hins vegar er mikilvægt að fólk virði lög og reglur sem gilda. Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir í viðtali við Markaðinn að ekkert bendi til þess að umfang skattsvika í gegnum erlend eignarhaldsfélög hafi minnkað frá árinu 2004. Miðað við tekjur ríkissjóðs undanfarin þrjú ár gætu skattsvik í gegnum þessar erlendu tengingar numið allt að fimmtán milljörðum króna. Það jafngildir kostnaði við rekstur framhaldsskólakerfisins á síðasta ári. Íslensk stjórnvöld hafa staðið sig vel í samkeppni landa um hagstætt skattaumhverfi fyrirtækja. Mikilvægt er að halda áfram á þeirri braut og forðast allar tilraunir ríkja í Evrópu til að samræma skattastefnu landanna. Næsta skref hlýtur að vera að lækka álögur á einstaklinga. Þannig tryggjum við áfram aukna verðmætasköpun og betri lífsgæði allra og drögum úr þörf fjárfesta til að færa fjármagn sitt í erlend eignarhaldsfélög.