Doðinn á tímum óvissunnar Jón Kaldal skrifar 11. nóvember 2008 06:00 Í dag eru liðnir 36 dagar frá setningu neyðarlaga Alþingis vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði, eins og það var orðað. Fimm vikur eru sem sagt liðnar frá því allt fór á hliðina. Ríkið yfirtók bankana, stærstu félög landsins óskuðu eftir greiðslustöðvun og risavaxnar skuldir í útlöndum á ábyrgð þjóðarinnar skutu upp kollinum. Fyrstu daga hrunsins var atburðarásin ógnarhröð og stórbrotin. En nú er sú staða gjörbreytt. Hver dagur er öðrum líkur. Ekkert virðist þokast áfram í þeim málum sem skipta mestu máli. Samfélagið bíður með öndina í hálsinum eftir merkinu um að nú sé tímabært að taka saman höndum, ryðja rústirnar og hefja uppbygginguna. Sá tími virtist vera runninn upp fyrir rúmlega hálfum mánuði, föstudaginn sem forsætisráðherra og utanríkisráðherra tilkynntu um að ákveðið hefði verið að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það reyndist misskilningur. Þess í stað er eins og þjóðin sé lent í sinni eigin útgáfu af Groundhog Day, bíómyndinni með Bill Murray um veðurfréttamanninn sem festist í smábænum Punxsutawney og upplifir sama daginn aftur og aftur og aftur. Karakter Murrays vaknar upp við sama lagið í útvarpinu hvern morgun, horfir á sama nagdýrið skríða úr holu sinni og gengur fram hjá sama rónanum hvern dag. Í íslensku útgáfunni eru í sömu hlutverkum: Icesave, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og lán, sem koma og hverfa jafnharðan aftur, ýmist frá Rússlandi, Norðurlöndunum eða Japan. Og svo auðvitað forsætisráðherrann okkar, sem birtist helst á sjónvarpsskjám landsmanna til að segja hvað sé ekki tímabært. Samkvæmt honum er ekki tímabært að ræða aðild að Evrópusambandinu, að skoða hvort skipta eigi um gjaldmiðil, að leysa stjórn Seðlabankans frá störfum, né ræða hvort eigi að flýta alþingiskosningum. Það er eins og forystumenn landsins átti sig ekki á því að eftirspurnin eftir svörum við því hvað eigi að gera hefur aldrei verið meiri. Það er hættulegt að láta dag eftir dag líða án sjáanlegrar framvindu. Doðinn er farinn að hríslast um æðar samfélagsins og upp frá honum getur magnast illviðráðanleg reiði. Snemma í sumar var kallað eftir leiðsögn frá stjórnmálamönnum í gegnum þá erfiðleika sem þá voru við sjóndeildarhringinn. Vandinn varð margfaldur þegar til kom og ekki bólar enn á leiðsögninni. Sú tilfinning fer reyndar hratt vaxandi að ríkisstjórnin sé á mörkum þess að vera í starfhæfu ástandi. Forystumenn landsins verða að fara að láta verkin tala. Það þarf forystu og skýr skilaboð. Þessi doði gengur ekki lengur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Kaldal Mest lesið „I believe the children are our future…“ Karen Rúnarsdóttir Skoðun Skólaskætingur Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir Skoðun Eldri borgarar – áhrif aðildar að Evrópusambandinu (ESB) Þorvaldur Ingi Jónsson Skoðun Þéttingarstefnan hefur brugðist og Dóra breytir um umræðuefni Aðalsteinn Haukur Sverrisson Skoðun Ný sókn í menntamálum Guðmundur Ari Sigurjónsson Skoðun Andaðu rólega elskan... Ester Hilmarsdóttir Skoðun Mikilvægi félagasamtaka og magnað maraþon Þuríður Harpa Sigurðardóttir Skoðun Reykjavíkurborg stígur fyrsta skrefið í snjallvæðingu umferðarljósa! Einar Sveinbjörn Guðmundsson Skoðun Ég vildi óska þess að ég hefði hreinlega fengið krabbamein Íris Elfa Þorkelsdóttir Skoðun Er Akureyri að missa háskólann sinn? Aðalbjörn Jóhannsson Skoðun
Í dag eru liðnir 36 dagar frá setningu neyðarlaga Alþingis vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði, eins og það var orðað. Fimm vikur eru sem sagt liðnar frá því allt fór á hliðina. Ríkið yfirtók bankana, stærstu félög landsins óskuðu eftir greiðslustöðvun og risavaxnar skuldir í útlöndum á ábyrgð þjóðarinnar skutu upp kollinum. Fyrstu daga hrunsins var atburðarásin ógnarhröð og stórbrotin. En nú er sú staða gjörbreytt. Hver dagur er öðrum líkur. Ekkert virðist þokast áfram í þeim málum sem skipta mestu máli. Samfélagið bíður með öndina í hálsinum eftir merkinu um að nú sé tímabært að taka saman höndum, ryðja rústirnar og hefja uppbygginguna. Sá tími virtist vera runninn upp fyrir rúmlega hálfum mánuði, föstudaginn sem forsætisráðherra og utanríkisráðherra tilkynntu um að ákveðið hefði verið að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það reyndist misskilningur. Þess í stað er eins og þjóðin sé lent í sinni eigin útgáfu af Groundhog Day, bíómyndinni með Bill Murray um veðurfréttamanninn sem festist í smábænum Punxsutawney og upplifir sama daginn aftur og aftur og aftur. Karakter Murrays vaknar upp við sama lagið í útvarpinu hvern morgun, horfir á sama nagdýrið skríða úr holu sinni og gengur fram hjá sama rónanum hvern dag. Í íslensku útgáfunni eru í sömu hlutverkum: Icesave, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og lán, sem koma og hverfa jafnharðan aftur, ýmist frá Rússlandi, Norðurlöndunum eða Japan. Og svo auðvitað forsætisráðherrann okkar, sem birtist helst á sjónvarpsskjám landsmanna til að segja hvað sé ekki tímabært. Samkvæmt honum er ekki tímabært að ræða aðild að Evrópusambandinu, að skoða hvort skipta eigi um gjaldmiðil, að leysa stjórn Seðlabankans frá störfum, né ræða hvort eigi að flýta alþingiskosningum. Það er eins og forystumenn landsins átti sig ekki á því að eftirspurnin eftir svörum við því hvað eigi að gera hefur aldrei verið meiri. Það er hættulegt að láta dag eftir dag líða án sjáanlegrar framvindu. Doðinn er farinn að hríslast um æðar samfélagsins og upp frá honum getur magnast illviðráðanleg reiði. Snemma í sumar var kallað eftir leiðsögn frá stjórnmálamönnum í gegnum þá erfiðleika sem þá voru við sjóndeildarhringinn. Vandinn varð margfaldur þegar til kom og ekki bólar enn á leiðsögninni. Sú tilfinning fer reyndar hratt vaxandi að ríkisstjórnin sé á mörkum þess að vera í starfhæfu ástandi. Forystumenn landsins verða að fara að láta verkin tala. Það þarf forystu og skýr skilaboð. Þessi doði gengur ekki lengur.
Reykjavíkurborg stígur fyrsta skrefið í snjallvæðingu umferðarljósa! Einar Sveinbjörn Guðmundsson Skoðun
Reykjavíkurborg stígur fyrsta skrefið í snjallvæðingu umferðarljósa! Einar Sveinbjörn Guðmundsson Skoðun