Enski boltinn

Vill að Arsenal neiti að standa heiðurs­vörð fyrir Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Chelsea standa hér heiðursvörð fyrir Virgil van Dijk og félaga í Liverpool fyrir leik liðanna um síðustu helgi.
Leikmenn Chelsea standa hér heiðursvörð fyrir Virgil van Dijk og félaga í Liverpool fyrir leik liðanna um síðustu helgi. Getty/Liverpool FC

Liverpool og Arsenal mætast í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Liðin eru í tveimur efstu sætunum en Liverpool er löngu orðið enskur meistari enda með fimmtán stigum meira þegar níu stig eru eftir í pottinum.

Liverpool tapaði á móti Chelsea um síðustu helgi í fyrsta leik sínum eftir að titilinn var tryggður. Leikmenn Chelsea stóðu heiðursvörð fyrir leikmenn Liverpool fyrir leik eins og venjan er.

Hörkutólið Troy Deeney vill að Arsenal noti tækifærið á Anfield um helgina til að senda Liverpool mönnum skilaboð og ýta um leið undir ríginn á milli tveggja efstu liðanna. Hvernig spyrja einhverjir. Jú með því að neita að standa heiðursvörð fyrir leikinn.

„Arsenal ætti að neita að standa heiðursvörð fyrir Liverpool á sunnudaginn. Það myndi heldur betur gefa tóninn fyrir næsta tímabil. Engir góðir gæjar lengur,“ sagði Troy Deeney eða „Mr. Nice Guys“ eins og hann orðaði það.

Mikael Arteta, knattpyrnustjóri Arsenal, ræddi þennan heiðursvörð á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Þeir eiga skilið að fá heiðursvörð. Þeir hafa verið besta liðið og stöðugasta liðið. Það hefur verið hrífandi að fylgjast með því hvað Arne Slot og þjálfarteymi hans hefur gert á tímabilinu. Þeir hafa staðið sig virkilega vel og eiga þetta fyllilega skilið,“ sagði Arteta.

„Svona eru íþróttirnar. Þegar einhver er betri en þú þá verður þú að klappa fyrir honum og sætta þig við það. Svo er bara að vinna að því að komast á sama stað á næsta tímabili,“ sagði Arteta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×