Upp­gjörið: Stjarnan - Tinda­stóll 91-86 | Stjarnan tryggði odda­leik eftir há­spennu

Árni Jóhannsson skrifar
Hilmar Smári Henningsson með boltann í leik kvöldsins.
Hilmar Smári Henningsson með boltann í leik kvöldsins. Vísir/Pawel

Stjarnan sýndi gífurlegan karakter þegar þeir sneru við erfiðri stöðu í hálfleik og náðu í sigur í leik fjögur um Íslandsmeistaratitilinn. Leikar enduðu 91-86 þar sem Stólarnir leiddur lungan úr leiknum en Stjarnan sneri við taflinu og tryggði oddaleikinn í næstu viku.

Sigtryggur Arnar var einn af þeim sem byrjaði mjög vel í dag.Vísir/Pawel

Tindastóll byrjaði leikinn mikið betur og þá meina ég að þeir hafi verið mikið mun betri. Hver þristurinn rak annann og áður en við var litið voru Stólarnir komnir 12 stigum yfir og Baldur búinn ða brenna einu leikhléi þegar um tvær og hálf mínúta var liðin. Stólarnir héldu áfram og héldu við öruggu forskoti með magnaðri hittni fyrir utan ásamt því að gera allt erfitt fyrir heimamenn. Staðan var 19-32 í lok fyrsta leikhluta og þó að Stjarnan hafi náð upp takti í sóknarleiknum þá voru engin stopp hjá Stjörnunni.

Sadio og Bjarni Guðmann áttu gott framlag báðir í kvöld.Vísir/Pawel

Stjarnan reyndi að keyra sig í gang en Stólarnir lifðu af áfhlaupið sem Stjarnan reyndi að koma sér af stað í. Stjarnan sem náði að stöðva aðgerðir gestanna og komu muninum niður í sjö stig en komust ekki lengra þar sem Stólarnir náðu að komast aftur af stað og náðu að auka muninn upp í 12 stig þegar gengið var til búningsherbergja. 

Basile reyndi margoft að setja Hlyn í þeytivinduna.Vísir/Pawel

Staðan 44-56 en það sem skipti mestu máli voru fréttir af Shaquille Rombley. Hann hafði farið til búningsherbergja um miðjan annan leikhlutann með verki fyrir brjóstinu og átti erfitt með andardrátt. Hann þurfti að fara á sjúkrahús en var í stöðugu ástandi þegar fréttir af honum bárust.

Stólarnir byrjuðu örlítið betur í seinni hálfleik en Stjarnan steig harðar fram í varnarleiknum. Tindastóll hafði skorað sjö stig úr hraðaupphlaupum í fyrri hálfleik og það var lokatalan í þeim tölfræði þætti í lok leiks. Sú staðreynd, meðal annars, varð til þess að munurinn fór hríðlækkandi en það gekk hægt fannst manni því þegar stoppin komu þá fylgdu ekki körfur í kjölfarið. Stólarnir hinsvegar, voru í villuvandræðum með nokkra menn, áttu mjög erfitt að með að skora til að lifa af áhlaupið og þegar upp var staðið í þriðja leikhluta var Stjarnan búin að jafna metið 73-73 en Jase Febres jafnaði þegar minna en hálf mínúta var eftir af leikhlutanum.

Harðar baráttur um allan völl.Vísir/Pawel

Stjarnan komst yfir, loksins, í upphafi fjórða leikhluta þegar Jase setti niður þrist úr neyðarskoti og kom stöðunni í 76-75. Við það rönkuðu Stólarnir við sér eða öllu heldur Deidrick Basile. Hann setti niður fimm stig í röð og virtist vera að koma í veg fyrir það að einvígið myndi fara aftur í Skagafjörðinn. Munurinn orðinn 76-81 og allt í blóma fyrir Stólana. En þá fóru menn að týnast út af með fimm villur og Stjarnan náði að herða varnarleikinn sinn enn meira. Þeir unnu síðustu fimm mínúturnar 15-5, komust yfir þegar 1:55 voru eftir af leiknum og náðu að halda gestunum í skefjum. Jase Febrese var í einu orði sagt frábær í seinni hálfleik og skoraði 24 stig í hálfleiknum. Tindastóll náði ekki að setja niður þrista á lokamínútunni og Stjarnan gekk frá leiknum.

Við förum því í oddaleik á miðvikudaginn þar sem annaðhvort liðið verður Íslandsmeistari. Leikurinn hefst kl. 20:00 og það ætti enginn að missa af þessu.

Leikmenn Stjörnunnar fagna með stuðningsmönnum eftir leik.Vísir/Pawel

Atvik leiksins.

Það verður að vera þegar Shaquille Rombley yfirgaf Umhyggjuhöllina í sjúkrabíl. Hann kenndi til brjóstverkja og átti erfitt með andardrátt en það bárust góðar fréttir í hálfleik af heilsu hans. Það er hægt að færa rök fyrir því að þetta atvik hafi þjappað Stjörnumönnum saman og skilað sigrinum þannig.

Basile í baráttunni við Ægi. Rombley fylgdist með á meðan hans naut við. Óskum honum alls hins besta.Vísir/Pawel

Stjörnur og skúrkar

Virkilega vel leikinn leikur. Stjarna leiksins var Jase Febrese, sem skoraði 24 stig í seinni hálfleik. Hann kom Stjörnunni yfir í tvígang og mann leið eins og allar körfurnar hans skiptu máli. Hilmar Smári og ægir skiluðu líka góðri vakt.

Hilmar Smári þýtur að körfunni.Vísir/Pawel

Adomas Drungilas, Giannis Agravannis og Sigtryggur Arnar voru allir í villuvandræðum í síðari hálfleik. Það er leitt fyrir Stólana því mögulega gátu þeri ekki beitt sér eins og þeir vildu. Deidrick Basile og Sadio Doucoure voru stigahæstir hjá Tindastól með 28 og 24 stig en það dró af þeim síðarnefnda í seinni hálfleik.

Sadio Doucoure skýtur með Hlyn Bæringsson til varnar.Vísir/Pawel

Umgjörð og stemmning

Í einu orði sagt frábær stemmning. Ég veit ekki hvort ég hefði heyrn ef ekki hefði notið við eyrnartappa en báðar sveitir voru á fullu allan tímann.

Stuðningsmenn Stjörnunnar voru háværir í kvöld.Vísir/Pawel

Dómararnir

Þeir áttu bara fínan leik. Auðvitað einhver atiriði sem hægt er að setja út á. Fimmta villan á Drungilas var mögulega á Sigtrygg en það hefði mögulega skipt máli í lok leiks. Það er þó ekki hægt að fullyrða um það.

Adomas Drungilas og Hlynur Bæringss. í hörðum bardaga.Vísir/Pawel

Viðtöl:

Baldur Þór: Þetta eru bara töffarar

Baldur Þór líflegur að vanda.Vísir/Pawel

Þjálfari Stjörnunnar, Baldur Þór Ragnarsson, gat verið ánægður með sína menn í kvöld. Hvernig ná Stjörnumenn alltaf að snúa við erfiðri stöðu?

„Bara lið. Þetta er geggjað lið. Geggjuð liðsheild. Kemistrían upp á tíu. Ég hef aldrei verið partur af liði með svona geggjaðri liðsheild. Jú einu. Íslenska landsliðinu. Það er með geggjaða liðsheild. Strákarnir gefast aldrei upp, halda alltaf áfram alveg sama hvað hindranir koma upp.“

Baldur var þá beðinn um að segja frá byrjunni þegar Tindastóll komst í 1-11 og Baldur þurfti að taka leikhlé. 

„Þeir voru bara á eldi. Sem betur fer stoppaði það því það var ekkert hægt að spila við þetta lið eins og þetta var. Það hætti og við héldum áfram fullir einbeitningar.“

Jase Febres var með 0 stig í hálfleik en 24 stig í seinni hálfleik. Fékk hann lestur í hálfleik?

„Nei svo sem ekki. Hann er bara með þvílíka hæfileika þessi gaur og getur þetta alveg. En þarf stundum að minna sig á það eins og í dag.“

Þetta virtist vera að leita í sama handrit og í síðasta leik þar sem Stjarnan jafnaði fyrir fjórða leikhluta en nú náðu þeir í sigurinn.

„Þetta eru bara töffarar. Búnir að fara í gegnum mikið sem lið og gera vel. Frábærir þarna í endann.“

Að lokum var Baldur spurður að því hvort hann gæti sagt okkur hvernig líðan Shaquille Rombley væri?

„Ég veit það ekki nákvæmlega. Ég fékk upplýsingar í hálfleik um það að öll test kæmu vel út. Hann var með öndunarerfiðleik í dag og svo bara gerist það sem gerist.“

Er Baldur ekki stoltur af því hvernig liðið brást við þessu?

„Þvílíkur karakter. Leiddir áfram af fullt af strákum sem vilja þetta rosa mikið. Setja allt í þettaog leggjast ekki niður.“

Dimitrios Agravanis og Shaquille Rombley.Vísir/Pawel
Davis Geks setti tvo þrista í kvöld.Vísir/Pawel
Hilmar Smári stillir upp.Vísir/Pawel
Orri Gunnarsson á fullri ferð.Vísir/Pawel

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira