Fótbolti

Aston Villa leggur fram kvörtun vegna dómara­vals gær­dagsins

Siggeir Ævarsson skrifar
Atvikið umdeilda sem kostaði Aston Villa mögulega sæti í Meistaradeildinni að ári
Atvikið umdeilda sem kostaði Aston Villa mögulega sæti í Meistaradeildinni að ári vísir/Getty

Aston Villa hefur lagt fram formlega kvörtun til dómarasambands ensku úrvalsdeildarinnar vegna leiks Manchester United og Aston Villa í gær. Kvörtunin snýr þó ekki að umdeildri ákvörðun Thomas Bramall dómara leiksins heldur að hann hafi verið settur á leikinn til að byrja með.

Bramall dæmdi mark Morgan Rogers á 73. mínútu ólöglegt en hann mat það sem svo að Rogers hefði brotið á Altay Bayindir, markverði Manchester United, í aðdragandi marksins. Endursýning sýndi þó að líklega átti ekkert brot sér stað en þar sem Bramall blés strax í flautuna var ekki hægt að skoða atvikið í VAR og ákvörðun hans stóð.

Staðan í leiknum á þessum tímapunkti var 0-0 en United skoraði mark strax í kjölfarið og vann leikinn að lokum 2-0. Jafntefli hefði dugað Aston Villa til að lyfta sér upp í 5. sætið og tryggt liðinu sæti í Meistaradeild Evrópu í haust.

Kvörtun Aston Villa snýr þó fyrst og fremst að þeirri ákvörðun að setja Bramall á þennan leik en hann er nokkuð óreyndur sem dómari í efstu deild og hefur aðeins dæmt ellefu leiki í deildinni þetta tímabilið. 

„Í leik þar sem jafn mikið og er í húfi og í leiknum í dag telur félagið að reynslumeiri dómari hefði átt að vera settur á leikinn. Af þeim tíu dómurum sem dæmdu leiki í dag var Bramall sá næst reynsluminnsti.“ - Segir m.a. í kvörtun félagsins. 

„Þetta snýst ekki um ákvörðunin. Hún er alveg ljós, þetta voru mistök. Dómarinn baðst afsökunar á mistökunum. Við getum ekkert gert í því. Vandamálið er að enginn af reyndum alþjóðlegum dómurum okkar voru að dæma hér í dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×