Erlent

Á góðri leið með lofts­lags­mark­mið standi ESB-ríki við sitt

Kjartan Kjartansson skrifar
Rómverjar kæla sig í gosbrunni í hitabylgju árið 2023. Einn fylgifiskur hnattrænnar hlýnunar eru skæðari hitabylgjur og þurrkar. Evrópusambandið stefnir á að draga úr losun um 55 prósent fyrir 2030 til þess að bregðast við loftslagsvánni.
Rómverjar kæla sig í gosbrunni í hitabylgju árið 2023. Einn fylgifiskur hnattrænnar hlýnunar eru skæðari hitabylgjur og þurrkar. Evrópusambandið stefnir á að draga úr losun um 55 prósent fyrir 2030 til þess að bregðast við loftslagsvánni. Vísir/EPA

Evrópusambandið er á góðri leið með að ná markmiði sínu um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 55 prósent fyrir 2030 miðað við þær uppfærðu áætlanir sem aðildarríkin hafa lagt fram. Markmið um 90 prósent samdrátt fyrir 2040 er sagt verða sveigjanlegt til þess að auðvelda ríkjum að ná því.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birti skýrslu með mati á uppfærðum landsáætlun aðildarríkjanna um aðgerðir þeirra til þess að ná losunarmarkmiðinu fyrir 2030 í dag. Samkvæmt því næði sambandið að draga úr losun um 54 prósent. Áður hafði framkvæmdastjórnin varað við því að landsáætlanirnar dygðu ekki til að ná 55 prósent markmiðinu.

„Þetta er í fyrsta skipti sem samanlagður árangur er í samræmi við Parísarsamkomulagið. Það eru góðar fréttir,“ segir Pascal Canfin, franskur Evrópuþingmaður sem tók þátt í að setja saman loftslagsáætlun Evrópusambandsins.

Til þess að markmiðið náist þurfa ríkin engu að síður að standa við gefin loforð og setja sér enn háleitari markmið í skugga bakslags í loftslagsmálum og vaxandi áherslna á útgjöld til varnarmála í álfunni, að sögn Evrópuútgáfu blaðsins Politico.

Ísland og Noregur taka þátt í markmiði Evrópusambandsins um að draga sameiginlega úr losun um 55 prósent miðað við losun ársins 1990. Ekki hefur enn verið greint frá því hver hlutdeild Íslands í því markmiði verður en talað hefur verið um að hún gæti verið um 41 prósent samdráttur.

Draga lappirnar á sumum sviðum

Þrátt fyrir að núverandi áætlanir gefi betri möguleika á því að markmið ESB náist bendir framkvæmdastjórnin að Evrópuríki hafi ekki gert nóg á ýmsum sviðum ennþá.

Þannig hafi ríkin til dæmis ekki gert nóg til þess að skapa kolefnisviðtaka eins og heilbrigða skóga og landsvæði sem getur bundið hundruð milljóna tonna af koltvísýringi fyrir lok áratugsins. Þá eru ríkin eftir á með markmið um orkunýtni. Markmiðið er að draga úr orkunotkun um 11,7 prósent fyrir 2030 en eins og stendur stefnir í að samdrátturinn nemi rúmum átta prósentum.

Auk þess hafa þrjú ríki; Belgía, Eistland og Pólland, ekki skila uppfærðum landsáætlun um loftslagsaðgerðir sínar.

Vilja ekki útvatna markmiðið um of

Búist er við að Evrópusambandið tilkynni bráðlega um nýtt markmið um 90 prósent samdrátt í losun fyrir árið 2040. Teresa Ribera, loftslagsmálastjóri ESB, segir við Politico, að sambandið ætli að halda sig við það markmið en koma til móts við ýmis álitaefni aðildarríkjanna og gera það sveigjanlegra til þess að tryggja samstöðu ríkjanna um stefnuna.

Spánverjinn Teresa Ribera er æðsti embættismaður Evrópusambandsins í loftslagsmálum en henni er einnig lýst sem hægri hönd Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnarinnar.Vísir/EPA

Á meðal þess „sveigjanleika“ sem sum ríki hafa kallað eftir er að fjárfestingar þeirra til að draga úr losun í öðrum ríkjum telji upp í þeirra eigin skuldbindingar. Slíkar alþjóðlegar kolefniseiningar væru  meiriháttar stefnubreyting fyrir Evrópusambandið.

Ribera segir að kolefniseiningar af þessu tagi séu til umræðu. Hún varar þó við að markmiðið, sem er samkvæmt ráðleggingum evrópskra vísindamanna, verði ekki útvatnað um of.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×