Enski boltinn

Hrókeringar í mark­mannsmálum Man City

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gæti snúið heim.
Gæti snúið heim. EPA/DANIEL HAMBURY

Það virðist sem breytingar séu framundan í markmannsmálum Manchester City. Englendingurinn James Trafford er orðaður við endurkomu eftir að hafa gert góða hluti hjá Burnley.

Hinn brasilíski Ederson hefur varið mark Man City með sóma frá árinu 2017. Hann hefur undnafarna mánuði verið orðaður við Sádi-Arabíu en virðist ekki æstur í að færa sig til Mið-Austurlanda.

Nú greinir franski miðillinn L'Équipe frá því að Galatasaray hafi boðið í markvörðinn þó upphæðin hafi verið hlægilega lág. Tyrklandsmeistararnir hafa styrkt sig í sumar og gæti verið að Ederson hefði áhuga á að spila í því andrúmslofti sem stórleikir í tyrknesku deildinni bjóða upp á.

Ederson og Pep Guardiola á góðri stundu.Catherine Ivill/Getty Images

Sky Sports greinir nú frá að Man City ætli sér að fá hinn 22 ára gamla James Trafford, markvörð Burnley. Sá ólst upp í bláa hluta Manchester-borgar. Hann myndi kosta Man City 40 milljónir punda eða sex og hálfan milljarð íslenskra króna.

Newcastle United hefur gert fjölmörg tilboð í Trafford, bæði í sumar sem og í janúar, en ekkert þeirra hefur heillað Burnley. Félagið getur hins vegar ekki neitað 40 milljón punda boði Man City þar sem klásúla þess efnis er í samningi Trafford frá því Burnley keypti hann af Man City árið 2023.

Til að fullkomna hrókeringuna myndi Man City selja Stefan Ortega færi svo að Trafford kæmi heim og Ederson yrði áfram. Ortega er svo á blaði hjá Burnley yfir mögulega arftaka Trafford.

Trafford yrði sjötti leikmaðurinn sem Man City kaupir í sumar. Tijjani Reijnders kom frá AC Milan, Rayan Cherki frá Lyon, Rayan Ait Nouri frá Úlfunum, Marcus Bettinelli frá Chelsea og Sverre Nypan frá Rosenborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×