Fótbolti

Arsenal stað­festir komu Gyökeres

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viktor Gyökeres er mættur til Arsenal.
Viktor Gyökeres er mættur til Arsenal. Gualter Fatia/Getty Images

Sænski framherjinn Viktor Gyökeres er genginn í raðir Arsenal frá Sportng CP.

Skytturnar staðfestu tíðindin á heimasíðu sinni og samfélagsmiðlum sínum í kvöld, en félagið greiðir allt að 73 milljónir evra fyrir leikmanninn. Það samsvarar um 10,3 milljörðum íslenskra króna.

Félagið greiðir upphaflega 63 milljónir evra fyrir leikmanninn, en gæti þurft að reiða fram tíu milljónir í viðbót í árangurstengdar bónusgreiðslur.

Gyökeres er sjötti leikmaðurinn sem Arsenal kaupir í sumar, en áður höfðu þeir Martin Zubimendi, Kepa Arrizabalaga, Christian Norgaard, Noni Madueke og Cristhian Mosquera samið við félagið.

Eins og áður segir kemur Gyökeres til Arsenal frá portúgalska liðinu Sporting CP, þar sem Svíinn raðaði inn mörkum. Í 66 deildarleikjum skoraði hann 68 mörk fyrir félagið.

Framherjinn hefur einnig verið hluti af sænska landsliðinu frá árinu 2019 þar sem hann hefur skorað 15 mörk í 26 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×