Leikjavísir

Mafia: The Old Country - Fínasta af­þreying, þó þunn sé

Samúel Karl Ólason skrifar
Enzo í góðum gír.
Enzo í góðum gír. 2k

Mafia: The Old Country er hin fínasta afþreying og hinn ágætasti leikur. Það er þó lítið sem gerir þennan leik framúrskarandi, annað en frekar áhugavert og fallegt sögusvið.

Leikurinn gerist á Sikiley í upphafi tuttugustu aldarinnar og fjallar um þrælinn Enzo Favara, sem lendir í ákveðnum vandræðum og þarf að vinna sig upp metorðastigann í samtökum ítalsks glæpaforingja. Það gerir Enzo heldur betur yfir árin, með tilheyrandi látum og dramatík, og stráfellir óvini Don Torrisi.

Þetta er eins og fín tíu plús klukkutíma löng mafíósamynd.

Næstum því opinn heimur

Þetta er fjórði leikurinn í seríunni að Definitive endurgerðinni undanskilinni kom síðasti leikurinn út árið 2016. Hann var allt í lagi en eins og í fyrri leikjunum kom fljótt í ljós að opni heimurinn sem leikurinn gerðist í var ekki upp á marga fiska.

Sjá einnig: Frábær skemmtun sem verður að leiðindum

Nú var sú ákvörðun tekin að sleppa opna heiminum alveg og leggja áherslu á söguna. Það held ég að hafi verið ágæt ákvörðun. Ég er samt ekki alveg viss, því mér virðist að leikurinn hafi átt að vera í opnum heimi og hann ber þess mikinn keim.

Maður eyðir töluverðum tíma í að ferðast um leikinn á hestbaki eða í bíl.

Þessi heimur virkar mjög áhugaverður og lúkkar frábærlega. Þetta er sögusvið sem hefur ekki verið oft til skoðunar í tölvuleikjum og mig langar að skoða það meira. En, vitandi hvernig opni heimurinn í gömlu leikjunum var, þá hefði ég líklegast orðið fyrir vonbrigðum með hann.

Starfsmenn Hangar 13 hafa opinberað að þeir muni á næstu mánuðum bæta við sérstakri spilunarleið og leyfa spilurum að ferðast um söguheiminn. Samhliða því ætla þeir að bæta við einhverju fyrir mann að gera. Ekki liggur fyrir nákvæmlega hvenær það á að gerast.

2K

Sagan það besta

Saga MTOC er það besta við hann, þó hún eigi erfitt með að halda í við sögu Mafia 3 og að ég telji mig hafa séð helstu vendingarnar fyrir. Það er þó líklega bara af því að ég er svo rosalega snjall og frábær.

Ég er ekki viss um að það sé auðvelt að klúðra mafíósasögu en saga leiksins á þó nokkra góða kafla. Það tekur hana þó nokkuð langan tíma að komast á skrið. Fyrstu tvo tímana fannst mér ég vera að gera lítið sem ekki neitt.

Þegar hún fer í gang sýnir hún góða persónusköpun, dramatík og sömuleiðis spennu, þó hún geti verið klisjukennd á köflum. Það má.

Mikil endurtekning í bardagakerfinu

Mafia er að mörgu leyti mjög hefðbundinn cover-skotleikur, þar sem maður hleypur milli skjóls og plaffar niður óvini í millitíðinni. Það er til aragrúi af slíkum skotleikjum og það er ekkert sérstakt sem lætur Mafia standa öðrum leikjum framar á því sviði.

Það sem ég er að reyna að segja, í of löngu máli, er að skotkerfi og bardagakerfi leiksins er voða beisik.

Það er lítil fjölbreytni þegar kemur að óvinum, hvort sem maður þarf að laumupúkast um kyrkja drullusokka eða skjóta þá. Óvinirnir í leiknum eru reyndar mjög vitlausir, svo það sé tekið fram. Það á við hvort sem þeir eru að reyna að skjóta Enzo eða reyna að sjá hann laumupúkast.

Maður þarf reyndar margoft að stinga drullusokka, því Enzo lendir ítrekað í hnífabardögum. Aftur er skortur á fjölbreytni, því allir þessir bardagar eru eins.

Maður dundar sér við að verjast á réttum tíma og stinga óvininn á réttum tíma, svo kemur smá myndband þar sem hann nær að stinga þig og maður byrjar svo aftur að verjast á réttum tíma og stinga, þar til nýtt myndband hefst og Enzo sigrar, eða tapar einhvern veginn slag sem hann var að rústa.

Þegar maður drepur karla eða rotar þá, þarf maður að ræna þá líka, til að betrumbæta vopnin hans Enzo og ýmislegt annað. Enn ein vísbending um að leikurinn hafi átt að gerast í opnum heimi en þar sem heimurinn er ekki opinn skipta uppfærslur á vopnum, bílum og hestum í rauninni litlu máli. 

2K

Samantekt-ish

Mafia: The Old Country er ekkert endilega góður leikur en hann er sömuleiðis alls ekki slæmur. Grafíkin og útlit leiksins er mjög gott en hann býður í rauninni upp á lítið nýtt, annað en fína sögu og áhugavert sögusvið.

Það er margt í leiknum sem hefði frekar átt heima í leik sem gerist í opnum heimi en hvort það hefði verið betra eða ekki er þó annað mál. Það kemur kannski í ljós á næstu mánuðum.

Heilt yfir, eins og ég segi í innganginum, er þessi leikur fín afþreying í nokkra klukkutíma en hann skilur ekkert brjálæðislega mikið eftir sig.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.