Fótbolti

„Þetta var ef­laust frá­bær leikur fyrir áhorf­endur“

Kolbeinn Kristinsson skrifar
Nik Chamberlain þjálfari Breiðabliks
Nik Chamberlain þjálfari Breiðabliks Paweł/Vísir

Breiðablik vann torsóttan 2-4 sigur á Víkingum í kvöld í Bestu deild kvenna. Nik Chamberlain, þjálfari Breiðabliks, var sáttur með sigurinn í leikslok en fannst leikmenn Breiðabliks í raun vera sjálfum sér verstar í kvöld.

„Mér fannst við gera okkur erfitt fyrir sjálf. Við vissum að þær myndu pressa okkur í fyrri hálfleik og skapa vandræði fyrir okkur en mér fannst við leysa það ágætlega, færðum boltann vel og fundum millisvæðin og sköpuðum mörg marktækifæri í fyrri hálfleik. Að sama skapi „díluðum“ við vel við þeirra skyndisóknir.“ 

„Í seinni hálfleik komumst við fljótlega í 3-0 en svo slökkvum við á okkur og sumir leikmenn voru jafnvel farnir að hugsa um bikarúrslitaleikinn um helgina og við leyfðum Víkingi að komast aftur inn í leikinn. En sem betur fer náðum við að klára leikinn og stigin þrjú.“

Næsti leikur er bikarúrslitaleikur gegn FH á laugardaginn næsta. Aðspurður hvort undirbúningi liðsins verði háttað eitthvað öðruvísi í vikunni fyrir leik segir Nik einfaldlega mikilvægast að tryggja að allir leikmenn séu heilir og tilbúnir til að spila á laugardag: 

„Aftur, við gerðum þetta okkur erfitt fyrir í dag en þetta var eflaust frábær leikur fyrir áhorfendur, það var mikil orka og góður leikur. Mikilvægt að ná í sigurinn fyrir laugardaginn næsta. Munum við gera eitthvað öðruvísi? Þetta verður svipaður leikur svo við verðum bara að vera vel undirbúnar.“

Nik var að lokum spurður um hvort hann væri með skilaboð til stuðningsfólks Breiðabliks fyrir leikinn stóra á laugardaginn. 

„Vonandi geta þau komið og stutt okkur eins og þau hafa gert. Þetta var minn fyrsti bikarúrslitaleikur með Breiðablik í fyrra og við fengum góða mætingu þá. Þetta verður fyrsti bikarúrslitaleikur FH svo þau munu mæta með allan Hafnarfjörðinn þannig vonandi getum við allavega mætt með græna hluta Kópavogs og tryggja það að við sigrum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×