Enski boltinn

Jökull í Kaleo hitti stjörnur Rauðu djöflanna og spilaði á Old Traf­ford

Aron Guðmundsson skrifar
Jökull Júlíusson, söngvari Kaleo, ræddi við stjörnur Manchester United og spilaði á Old Trafford
Jökull Júlíusson, söngvari Kaleo, ræddi við stjörnur Manchester United og spilaði á Old Trafford Samsett mynd

Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United birti í morgun skemmtileg myndbönd á heimasíðu sinni þar sem að Jökli Júlíussyni, söngvara íslensku hljómsveitarinnar Kaleo bregður fyrir meðal stjörnuleikmanna liðsins sem og á Old Trafford.

Um tvö myndbönd er að ræða. Annars vegar ræðir Jökull, sem er mikill stuðningsmaður Manchester United frá því í æsku, við Rio Ferdinand, fyrrverandi leikmann félagsins, sem og núverandi leikmenn. Er þar um að ræða fyrirliðann Bruno Fernandes, Diogo Dalot og einn af nýju leikmönnum liðsins Matheus Cunha sem kom frá Wolves.

Ræða þeir félagarnir sín á milli tengsl fótboltans og tónlistarinnar, hversu miklu máli samspil þessa tveggja listforma skiptir og nefnir Jökull meðal annars hversu mikill áhugi er hér á landi fyrir Manchester United sem og ensku úrvalsdeildinni í heild sinni. 

Það myndband má sjá hér. 

Svo má ætla að Jökull hafi fengið einhvers konar draum uppfylltann er hann fékk að labba inn á Old Trafford, sem jafnan er kallað Leikhús draumanna, og spila lagið Take Me Home, Country Roads sem John Denver gerði eilíft á sínum tíma. 

Lagið er jafnan spilað á Old Trafford í kringum leiki Manchester United með breyttum texta og undir heitinum Take Me Home, United Road. Hlusta má á flutning Jökuls hér.

Manchester United tekur á móti Arsenal í stórleik fyrstu umferðar ensku úrvalsdeildarinnar á Old Trafford á morgun. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Sýn Sport.

Jökull ræðir við Rio Ferdinand, fyrrverandi leikmann Manchester United sem og Diogo Dalot, Bruno Fernandes og Matheus Cunha, nokkra af núverandi leikmönnum liðsinsVísir/Skjáskot
Jökull á Old Trafford
Þar flutti hann lagið Take Me Home, Country Roads



Fleiri fréttir

Sjá meira


×