Enski boltinn

For­est kaupir tvo úr Evrópu­meistara­liði Eng­lands

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Omari Hutchinson og James McAtee í úrslitaleik EM U-21 árs í sumar. Þar vann England 3-2 sigur á Þýskalandi eftir framlengingu.
Omari Hutchinson og James McAtee í úrslitaleik EM U-21 árs í sumar. Þar vann England 3-2 sigur á Þýskalandi eftir framlengingu. getty/Eddie Keogh

Nottingham Forest hefur fest kaup á tveimur leikmönnum sem voru í liði Englands sem varð Evrópumeistari U-21 árs í sumar.

Þetta eru þeir Omari Hutchinson og James McAtee. Sá fyrrnefndi kom frá Ipswich Town fyrir 37,5 milljónir punda en sá síðarnefndi frá Manchester City fyrir þrjátíu milljónir punda.

Forest hefur verið rólegt í tíðinni á félagaskiptamarkaðnum í sumar, full rólegt fyrir smekk knattspyrnustjórans Nunos Espírito Santo. Forest tekur þátt í Evrópudeildinni á þessu tímabili og því verður álagið meira en á því síðasta.

Hutchinson og McAtee voru báðir í lykilhlutverki hjá enska landsliðinu sem stóð uppi sem sigurvegari á EM U-21 árs í sumar. McAtee var fyrirliði enska liðsins.

Hutchinson lék 31 leik með Ipswich í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og skoraði þrjú mörk. McAtee kom við sögu í fimmtán deildarleikjum á síðasta tímabili og skoraði þrjú. Hann lék sem lánsmaður með Sheffield United á árunum 2022-24; spilaði alls 75 leiki og skoraði fjórtán mörk.

Forest tekur á móti Brentford í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar klukkan 13:00 í dag. Leikurinn verður sýndur beint á Sýn Sport 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×