Enski boltinn

Isak skrópar á verðlaunahátíð

Valur Páll Eiríksson skrifar
Isak mun ekki láta sjá sig á verðlaunahátíð kvöldsins.
Isak mun ekki láta sjá sig á verðlaunahátíð kvöldsins. EPA/ADAM VAUGHAN

Ekki er búist við því að Svíinn Alexander Isak, leikmaður Newcastle United, láti sjá sig á PFA-verðlaunahátíðinni, þar sem bestu leikmenn ársins í ensku úrvalsdeildinni eru verðlaunaðir. Athöfnin fer fram í dag.

ESPN greinir frá. Isak muni ekki láta sjá sig á hátíðinni í kvöld sem haldin er af leikmannasamtökum Englands, PFA, vegna óvissu um framtíð hans. Isak hefur verið orðaður við Liverpool og hefur ekki æft með Newcastle síðustu vikur til að reyna að knýja fram skipti.

Isak er tilnefndur sem besti leikmaður ársins á Englandi, en hann skoraði 23 mörk fyrir Newcastle á síðustu leiktíð. Auk Isaks eru Mohamed Salah, Alexis Mac Allister, Declan Rice, Cole Palmer og Bruno Fernandes tilnefndir til verðlaunanna en fastlega er búist við því að Egyptinn Salah hreppi hnossið.

PFA mun einnig opinbera lið ársins á Englandi, en fastlega er búist við því að Isak verði þar á blaði.

Isak er 25 ára gamall og á í deilum við vinnuveitendur sína á Norður-Englandi. Óvissa hefur verið um framtíð framherjans í allt sumar. Liverpool hefur lagt fram eitt tilboð í Svíann en því var snarlega hafnað.

Alan Shearer, sem er goðsögn hjá Newcastle, gagnrýndi hegðun Isaks í Match of the Day á BBC um helgina. Isak er enn leikmaður þeirra svarthvítu og útlit er fyrir að Newcastle vilji ekki heimila honum að fara fyrr en annar framherji hefur fundist í staðinn.

Þónokkrir framherjar hafa hafnað Newcastle í sumar, þar á meðal Joao Pedro og Liam Delap sem fóru báðir til Chelsea, sem og Benjamin Sesko sem fór til Manchester United og Hugo Ekitike sem fór til Liverpool.

Liverpool er sagt á tánum og sækist enn eftir kröftum Isaks en ekki er talið að félagið leggi annað tilboð fram fyrr en Newcastle sýnir að liðið sé tilbúið að ræða skiptin frekar.

Liverpool vann 4-2 sigur á Bournemouth í fyrsta leik liðsins á tímabilinu á föstudagskvöldið var. Newcastle gerði markalaust jafntefli við Aston Villa á laugardag.

Liðin mætast í næstu umferð deildarinnar, á St. James' Park í Newcastle, á mánudagskvöldið kemur. Sá leikur, líkt og allir aðrir leikir í ensku úrvalsdeildinni, verður í beinni á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×