Enski boltinn

Gagn­rýndu Bruno: „Hann átti skelfi­legan leik“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bruno Fernandes brást bogalistin á vítapunktinum þegar Manchester United gerði jafntefli við Fulham, 1-1, á Craven Cottage.
Bruno Fernandes brást bogalistin á vítapunktinum þegar Manchester United gerði jafntefli við Fulham, 1-1, á Craven Cottage. getty/Justin Setterfield

Bruno Fernandes, fyrirliði Manchester United, fékk ekki háa einkunn hjá sérfræðingum Sunnudagsmessunnar fyrir frammistöðu sína í 1-1 jafnteflinu við Fulham í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

Fernandes fann sig ekki í leiknum en fékk þó kjörið tækifæri til að skora sitt fyrsta mark á tímabilinu þegar United fékk vítaspyrnu í fyrri hálfleik. Hann skaut boltanum hins vegar yfir mark Fulham en árekstur við dómarann Chris Kavanagh í aðdraganda spyrnunnar virtist hafa sett hann út af laginu.

„Hann lætur Kavanagh pirra sig. Hann rétt rekst í hann og hann gerir svo mikið mál úr þessu. Hann gerir þetta að miklu stærra máli en þetta er. Býr til eitthvað vandamál úr þessu, fer að laga boltann og er orðinn pirraður þegar hann tekur þetta víti og neglir þessu vel yfir,“ sagði Albert Brynjar Ingason í Sunnudagsmessunni. 

Hann vill líka meina að Fernandes hafi gert sig sekan um mistök í jöfnunarmarki Fulham sem Emile Smith-Rowe skoraði.

„Þetta er fyrirliði liðsins. Drullastu til að klára þetta hlaup niður. Hann átti skelfilegan leik. Eitthvað er að trufla hann. Hvort það sé þessi staða að vera svona aftarlega á vellinum,“ sagði Albert.

Klippa: Sunnudagsmessan - Umræða um Bruno Fernandes

„Mér fannst líka oft svona í fyrra,“ sagði Ásgerður Stefanía Baldursdóttir. „Svo komu oft augnablik þar sem hann virkaði pirraður. Hann er að fá [Matheus] Cunha og [Bryan] Mbeumo með sér í lið og maður hugsar að það taki smá pressu af honum því ef United spilaði vel var það vegna þess að Bruno var góður. En hann hefur ekki virkað heill eða góður í upphafi þessa tímabils.“

United er með eitt stig eftir fyrstu tvær umferðirnar í ensku úrvalsdeildinni. Næsti leikur liðsins er gegn Burnley á Old Trafford á laugardaginn.

Innslagið úr Sunnudagsmessunni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Botna lítið í Amorim: „Hann er ein taugahrúga“

Sérfræðingar Sunnudagsmessunnar botna lítið í sumum ákvörðunum Rubens Amorim, knattspyrnustjóra Manchester United, eins og að nota Altay Bayindir í marki liðsins í stað Andrés Onana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×