Enski boltinn

Mainoo vill fara á láni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kobbie Mainoo á ekki fast sæti í byrjunarliði Manchester United.
Kobbie Mainoo á ekki fast sæti í byrjunarliði Manchester United. getty/Jacques Feeney

Kobbie Mainoo, miðjumaður Manchester United, hefur óskað eftir því að fara frá félaginu á láni til að spila reglulega.

David Ornstein á The Athletic greinir frá þessari bón Mainoos. Enski landsliðsmaðurinn vill ekki vera seldur en vill komast tímabundið til annars liðs í von um meiri spiltíma.

Hinn tvítugi Mainoo kom ekkert við sögu í fyrstu tveimur leikjum United í ensku úrvalsdeildinni en lék allan leikinn þegar liðið féll úr leik fyrir Grimsby Town í 2. umferð deildabikarsins í fyrradag.

United hefur lítinn áhuga á að lána Mainoo og vill að hann haldi kyrru fyrir og berjist fyrir sæti sínu í byrjunarliðinu.

Mainoo sló í gegn með United á þarsíðasta tímabili og skoraði meðal annars í sigri liðsins á Manchester City í bikarúrslitaleiknum. Hann lék svo alla leiki Englands í útsláttarkeppninni á EM 2024. Englendingar komust alla leið í úrslit en töpuðu fyrir Spánverjum, 2-1.

United mætir Burnley á Old Trafford á morgun. Leikurinn hefst klukkan 14:00 og verður sýndur beint á Sýn Sport 2.


Tengdar fréttir

Neyðarleg tölfræði Onana í vítakeppninni

André Onana fékk heldur betur á baukinn eftir að Manchester United féll úr leik gegn D-deildarliði Grimsby Town í 2. umferð enska deildabikarsins í gær.

„Við vorum algjörlega týndir“

Ruben Amorim, stjóri Manchester United, var ekki upplitsdjarfur eftir að liðið datt út úr enska deildabikarnum í kvöld á móti D-deildarliði Grimsby Town. Þetta var skömmustulegt kvöld fyrir stórliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×