Enski boltinn

Mo Salah var ekki skemmt vegna færslu um fyrrum fé­laga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah er ekki ánægður með umræðuna um tvo fyrrum leikmenn Liverpool.
Mohamed Salah er ekki ánægður með umræðuna um tvo fyrrum leikmenn Liverpool. EPA/ADAM VAUGHAN

Mohamed Salah gagnrýndi færslu á vinsælum Liverpool samfélagsmiðli þar sem hann taldi menn þar á bæ vera hreinlega að gera lítið úr fyrrum liðsfélögum hans hjá Liverpool.

Anfield Edition samfélagsmiðilinn er með yfir fimm hundruð þúsund fylgjendur en sá hinn sami fékk að heyra það frá stærstu stjörnu Liverpool liðsins.

Anfield Edition birti myndir af Luis Díaz og Darwin Núnez í svarthvítu við hlið litmynda af Alexander Isak og Florian Wirtz. Undir stóð síðan: „Name a bigger upgrade in footballing history“ eða „Nefnið betri uppfærslu í fótboltasögunni“

Liverpool seldi þá Luis Díaz and Darwin Núnez í sumar til Bayern München og Al Hilal en borgaði í staðinn 250 milljónir punda fyrir þá Alexander Isak og Florian Wirtz. Nýju mennirnir fá sjöuna og níuna hjá Liverpool, treyjunúmerin sem hinir spiluðu í. Samanburðurinn lá því beint við en Egyptanum var ekki skemmt.

Salah deildi færslunni en bætti við:

„Hvernig væri nú ef við fögnuðum tveimur frábærum kaupum án þess að gera lítið úr enskum meisturum,“ skrifaði Salah.

Mohamed Salah var í sérflokki í sókn Liverpool á meistaratímabilinu með 29 mörk og 18 stoðsendingar en hann var efstur í ensku úrvalsdeildinni á báðum listum.

Luis Díaz var með 13 mörk og 5 stoðsendingar en Darwin Núnez skoraði 5 mörk og gaf 2 stoðsendingar. Þeir tveir bjuggu því saman til 25 mörk en Salah átti einn þátt í 47 mörkum.

Florian Wirtz hefur ekki byrjað tímabilið vel og á enn eftir að eiga þátt í marki eftir þrjá deildarleiki. Isak mun spila sína fyrstu leiki með Liverpool eftir landsleikjahlé sem nú í fullum gangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×