Áskorun

50+: Að sleppa takinu af krökkunum þegar þau eru flutt að heiman

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það virðist reynast mörgum foreldrum erfitt að sleppa takinu af krökkunum þegar þau flytja að heiman. Rannsóknir sýna til dæmis að konur eldri en fimmtugt, eru oftast ekki með áhyggjur af sjálfum sér heldur uppkomnum börnum sínum.
Það virðist reynast mörgum foreldrum erfitt að sleppa takinu af krökkunum þegar þau flytja að heiman. Rannsóknir sýna til dæmis að konur eldri en fimmtugt, eru oftast ekki með áhyggjur af sjálfum sér heldur uppkomnum börnum sínum. Mynd/getty

Munu þau hætta saman? Er hún/hann með einhverja stefnu um hvað hann/hún vil gera? Mun hann/hún einhvern tíma flytja aftur heim?

Eitt af því sem virðist ekki hjaðna hjá foreldrum þótt börnin verði eldri og flytji að heiman, eru þessar tilfinningalegu vangaveltur sem foreldrar virðast endalaust hafa um börnin sín.

Þótt þau teljist vera orðin fullorðin!

Flestir viðurkenna að ofhugsa málin nokkuð. Sem fyrir vikið gerir það að verkum að í stað þess að foreldrar séu að njóta þess tíma til fulls sem getur skapast þegar hreiðrið tæmist heima fyrir, fer öll orkan og hugsunin í að velta fyrir sér: Hvernig er staðan hjá þeim?

Oft er erfitt að sleppa takinu.

Í umfjöllun belgíska tímaritsins Fifty & me, segir að allar þessar hugsanir okkar um fullorðnu börnin taki jafnvel ýmsan toll af fólki. Bæði andlega og líkamlega. Sumir ofhugsa málin meira að segja svo svakalega, að þótt vel gangi hjá börnunum, er samt verið að hafa áhyggjur af því hvort þau verði ekki örugglega allt í lagi. Eða hjónabandið þeirra. Eða starfið þeirra. Eða heimilisaðstæðurnar. Eða vinnan…….

Nýlegar rannsóknir staðfesta meira að segja að áhyggjur kvenna yfir fimmtugt snúast oftar en ekki ekkert um þær sjálfar, heldur fullorðnu brottfluttu börnin!

Hér eru nokkur góð ráð fyrir foreldra

Í fyrsta lagi er gott að muna að það að sleppa takinu af börnunum okkar, hefur ekkert með ást, kærleika, stuðning eða samkennd að gera. Við elskum, styðjum og samgleðjumst alveg jafn mikið þótt við séum ekki að hugsa um þessi fullorðnu börn okkar daginn út og daginn inn.

Í öðru lagi er gott fyrir okkur að muna, að við séum að sleppa takinu því börnin okkar eru ekki lengur á okkar ábyrgð: Þeirra verkefni er núna að fullorðnast, líka með því að fara í gegnum þær áskoranir sem öllu lífi fylgir.

Gott er síðan að hafa þessi atriði á bakvið eyrað:

  • Sættu þig við að það er ekki þitt verk að reyna að leysa úr öllu
  • Settu þér og þeim mörk; Þú þarft ekki alltaf að segja já við öllu eða að fá samviskubit yfir því að vera ekki stanslaust til staðar eða til í að fá þau í heimsókn, passa eða gera eitthvað annað fyrir þau og svo framvegis
  • Mundu að lífið þeirra er ekki þitt líf; Það snertir okkur vissulega en þú hefur enga stjórn á þeirra lífi
  • Endurhugsaðu og fjárfestu í tíma og orku í þinni eigin sjálfsrækt, verkefnum, áhugamálum, vináttusamböndum, parsambandi eða draumum.
Í raun má segja að verkefnið felist í því að skapa þeim svigrúm til að lifa sínu lífi  og um leið að þú skapir þér rými og tækifæri til að njóta lífsins þíns til fulls.
50+

Tengdar fréttir

50+: Hræðslan við að eldast útlitslega og góð ráð

Sitt sýnist hverjum um hvað fagurt er og með sanni má segja í dag að viðmiðin geta verið harla ólík. Ekki síst þegar kemur að því hvernig fólk eldist. Þar sem sumum finnst eftirsóknarvert að eldast náttúrulega á meðan aðrir velja ýmsar fegrunaraðgerðir og fleiri leiðir til að viðhalda unglegu útliti sem lengst.

50+: Grái fiðringurinn hjá kallinum ekkert endilega vesen

Við erum flest með ákveðna ímynd af karlmönnum með gráa fiðringinn. Sjáum þá oft fyrir okkur rembast við að reyna að halda sér mjög ungæðislegum. Stunda jafnvel ræktina af offorsi eða byrja á nýrri hreyfingu og útivist; Með stæl.

50+: Þegar börnin búa enn heima hátt í þrítugt

Flest okkar þekkjum til ungs fullorðins fólks sem velur að búa í foreldrahúsum til þess að leggja fyrir. Stundum fyrir sinni fyrstu eign, stundum fyrir ferðalögum um heiminn, stundum fyrir einhverju öðru; Ástæðurnar geta verið ýmsar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.