Enski boltinn

Fram­lengdu í leyni eftir bannið

Valur Páll Eiríksson skrifar
Tonali er samningsbundinn Newcastle ári lengur en talið var og þá getur félagið einhliða lengt samninginn um eitt ár til.
Tonali er samningsbundinn Newcastle ári lengur en talið var og þá getur félagið einhliða lengt samninginn um eitt ár til. Richard Sellers/Sportsphoto/Allstar via Getty Images

Forráðamenn Newcastle framlengdu samning við Ítalann Sandro Tonali í leyni eftir að miðjumaðurinn lauk keppnisbanni vegna brota á reglum um veðmál. Tonali er á meðal betri miðjumanna ensku úrvalsdeildarinnar og hefur hlotið mikið lof fyrir framgang sinn innan vallar.

Tonali hefur verið orðaður við stærri lið í Evrópu vegna frammistöðu sinnar í svarthvítu en The Athletic greinir frá því að Newcastle sé í umtalsvert betri samningsstöðu gagnvart mögulegum kaupendum en talið var.

Newcastle keypti Tonali frá AC Milan á 55 milljónir punda sumarið 2023 skrifaði undir samning til sumarsins 2028. Hann hafði aðeins leikið tólf leiki fyrir félagið þegar hann var dæmdur í tíu mánaða bann frá fótbolta vegna brota á veðmálareglum.

Umboðsmaður Tonali hefur sagt hann glíma við veðmálafíkn og lækkuðu hlutabréfin í Ítalanum umtalsvert vegna brotanna.

Tonali tók á sig launalækkun á meðan banninu stóð en Newcastle framlengdi í leið samning hans til sumarsins 2029 með möguleika á einhliða framlengingu af hendi félagsins, til sumarsins 2030.

Ítalinn hefur verið orðaður við stærri lið í Evrópu sem gætu eflaust boðið honum hærri laun en hann fær í norðurhluta Englands. Paul Scholes, fyrrum leikmaður Manchester United, lýsti Tonali á dögunum sem besta miðjumanni ensku úrvalsdeildarinnar.

Þrátt fyrir að félög á við Juventus hafi verið orðuð ítrekað við Tonali í undanförnum félagsskiptagluggum er Newcastle undir lítilli pressu að selja og er í sterkri samningsstöðu þökk sé framlengingu samningsins.

Sala félagsins á Alexander Isak til Liverpool fyrir 125 milljónir punda í lok sumars kom Newcastle einnig í góða stöðu gagnvart eyðslureglum ensku úrvalsdeildarinnar og UEFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×