Enski boltinn

Ian Rush lagður inn á sjúkra­hús

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tveir markahrókar, Mo Salah og Ian Rush en Rush afhenti Salah gullskóinn í lok síðustu leiktíðar.
Tveir markahrókar, Mo Salah og Ian Rush en Rush afhenti Salah gullskóinn í lok síðustu leiktíðar. Getty/Liverpool FC

Liverpool-goðsögnin Ian Rush var lögð inn á sjúkrahús og var í 48 klukkustundir á gjörgæslu vegna öndunarerfiðleika.

Enskir fjölmiðlar segja frá veikindum markahæsta leikmanns Liverpool frá upphafi. Rush var fluttur í skyndi á sjúkrahús.

The Daily Mail greinir frá því að goðsögn Liverpool hafi síðan brugðist vel við meðferð á Countess of Chester-sjúkrahúsinu eftir að hafa þjáðst af öndunarerfiðleikum.

Hinn 64 ára gamli er enn á sjúkrahúsinu eftir nokkra áhyggjufulla daga. Grunur leikur á að hann hafi smitast af afbrigði „ofurflensunnar“ sem hefur breiðst út undanfarið.

Rush, markahæsti leikmaður Liverpool frá upphafi, er sendiherra á Anfield og er talinn einn besti breski framherji í sögu leiksins.

Fyrrverandi framherji Liverpool er sagður hafa fundið fyrir vanlíðan í vikunni áður en hann kallaði eftir hjálp og var fluttur í skyndi á sjúkrahús og lagður á gjörgæsludeild þar sem hann fékk bráðameðferð.

Sem betur fer er Rush nú við góða heilsu og vonast til að komast heim fyrir jól.

Goðsögn Liverpool skoraði 346 mörk í öllum keppnum á tíma sínum hjá félaginu og er næstmarkahæsti leikmaður í sögu ensku bikarkeppninnar með 41 mark.

Rush var lykilmaður í yfirburðum Liverpool á níunda áratugnum, en hann átti tvö sigursæl tímabil á Anfield, auk þess sem hann lék með Juventus.

Hann var einnig markahæsti leikmaður Wales með 28 mörk þar til það met var slegið af fyrrverandi framherja Real Madrid og Spurs, Gareth Bale, árið 2018.

Rush er nýjasta fórnarlamb faraldursins sem gengur yfir landið, en sjúkrahús víðs vegar um Bretland hafa lýst yfir neyðarástandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×