Upp­gjörið: Haukar - Fram 25-27 | Meistararnir unnu toppliðið í nagl­bít

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
601816158_10163653982074035_7431077885364126241_n
Vísir/Vilhelm

Íslandsmeistarar Fram unnu dramatískan tveggja marka sigur er liðið heimsótti topplið Hauka í síðustu umferð Olís-deildar karla fyrir jól í kvöld, 25-27.

Hraði, barátta og eitthvað af töpuðum boltum einkenndu fyrri hálfleik, en þrátt fyrir að heldur lítið væri skorað framan af var boðið upp á hina mestu skemmtun.

Framarar höfðu yfirhöndina í upphafi leiks og náðu tveggja marka forystu, þrátt fyrir að Aron Rafn Eðvarðsson hafi múrað fyrir markið fyrstu mínúturnar.

Handbolti er þó leikur áhlaupa og liðin skiptu forystunni nokkuð jafnt á milli sín í fyrri hálfleik. Haukar náðu einni tveggja marka forystu um miðbik fyrri hálfleiksins áður en Framarar komust aftur tveimur mörkum yfir í stöðunni 11-13 þegar um tvær mínútur voru til hlés.

Arnór Máni Daðason hafði komið inn í markið hjá Fram þegar um tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og reyndist Haukum erfiður, en hann gat þó ekki komið í veg fyrir að Andri Fannar Elísson myndi skora síðasta markið fyrir hlé og staðan því 12-13 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Síðari hálfleikur var svo alls ekki síðri en sá fyrri. Áfram var lítið skorað, en það gerði ekkert til því aðrir hlutar leiksins gerðu það að verkum að úr varð hörkuviðureign.

Haukar virtust vera komnir með fín tök á leiknum snemma í seinni háfleik þegar liðið náði þriggja marka forskoti í stöðunni 19-16. Stuttu síðar fékk Erlendur Guðmundsson svo að líta beint rautt spjald í liði Fram og heimamenn því að komast í ansi góð mál.

Framarar virtust þó eflast við rauða spjaldið og jöfnuðu metin í 20-20. Aftur náðu Haukar þriggja marka forskoti, en gestirnir skoruðu þá fjögur mörk í röð og komust í 23-24 þegar um átta mínútur voru til leiksloka.

Þá tók við kafli þar sem hvorugu liðinu tókst að skora í rúmar fimm mínútur og mikill hiti færðist í leikinn.

Ólafur Ægir jafnaði metin fyrir Hauka í 25-25 þegar rúm mínúta var eftir, en Dagur Fannar Möller kom Frömurum yfir á nýjan leik þegar slétt mínúta var til leiksloka.

Adam Haukur Baumruk fékk dæmdan á sig ruðning í því sem varð síðasta sókn Hauka í leiknum og Össur Haraldsson fékk dæmt á sig víti og beint rautt spjald fyrir litlar sakir á lokasekúndunum, sem varð til þess að allt var á suðupunkti.

Theodór Sigurðsson fór á vítalínuna fyrir Fram og tryggði gestunum dramatískan tveggja marka sigur, 25-27, og óhætt er að segja að Haukarnir hafi gengið súrir inn til búningsherbergja.

Atvik leiksins

Síðustu sekúndur leiksins voru algjörlega rafmagnaðar og enduðu með því að Össur Haraldsson var sendur í sturtu og Framarar fengu víti sem tryggði liðinu sigurinn. Eftir að hafa skoðað atvikið betur má sjá að Ólafur Ægir Ólafsson er dæmdur brotlegur á miðjum velli, en liðsfélagi hans, Össur Haraldsson, heldur líklega að verið sé að dæma Haukum boltann. Hann ætlar því að taka boltann af gestunum til að koma Haukum í snögga sókn, en þess í stað er dæmt á hann víti og beint rautt spjald, sem varð til þess að liðsmenn Hauka urðu (kannski eðlilega) trylltir.

Stjörnur og skúrkar

Arnór Máni Daðason kom af miklum krafti inn í mark Framara um miðbik fyrri hálfleiks og lokaði búrinu á löngum köflum í kvöld. Dagur Fannar Möller var markahæstur í liði Fram með sjö mörk og getur einnig gengið sáttur frá sínu.

Haukarnir voru hins vegar líklega sjálfum sér verstir í kvöld. Heimamenn gerðust sekir um mörg mistök sóknarlega, töpuðu mikið af boltum og klikkuðu á of mörgum dauðafærum. 

Auðvitað er hægt að benda á atvikið þegar Adam Haukur tapar boltanum í síðustu sókn Hauka, og þegar Össur fær dæmt á sig víti og rautt spjald á lokasekúndunum, en það var bara svo margt annað sem Haukar gerðu ekki nógu vel í kvöld.

Dómararnir

Þeir Árni Snær Magnússon og Þorvar Bjarmi Harðarson fengu ekki auðvelt verkefni í kvöld. Framan af leik áttu þeir góðan leik, þrátt fyrir óhjákvæmileg vafaatriði sem koma upp í handboltaleik.

Það voru þó nokkrir skrýtnir dómar sem féllu í kvöld og ber þar auðvitað hæst að nefna lokasekúndur leiksins þar sem Framarar fá víti og Össur Haraldsson fær að líta beint rautt spjald. Vissulega er hægt að færa rök fyrir því að Ólafur Ægir hafi brotið af sér á miðjum velli, en að Össur sé sendur í sturtu og Framarar á vítalínuna, er í besta falli vafamál. 

Stemning og umgjörð

Lengi vel leit út fyrir að það yrði frekar slöpp mæting á Ásvelli í kvöld, en það rættist sem betur fer úr henni þegar leikurinn hófst. Áhorfendur létu vel í sér heyra, enda ekki annað hægt á svona leik, og umgjörð Haukana var, eins og svo oft áður, til fyrirmyndar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira