Fótbolti

Úr Bestu deild yfir í að slá í gegn í Meistara­deild: „Ég elska pressuna“

Aron Guðmundsson skrifar
Viktor Bjarni Daðason hefur verið að gera frábæra hluti með FC Kaupmannahöfn og hefur sömuleiðis vakið mikla athygli í Meistaradeild Evrópu með liðinu.
Viktor Bjarni Daðason hefur verið að gera frábæra hluti með FC Kaupmannahöfn og hefur sömuleiðis vakið mikla athygli í Meistaradeild Evrópu með liðinu. Vísir/Anton Brink

Hinn sau­tján ára gamli Viktor Bjarki Daða­son hefur skotist fram á sjónar­sviðið á stærsta sviði fót­boltans á árinu sem nú er að renna sitt skeið. Viktor Bjarki er með mark­miðin á hreinu, stefnir langt og lætur ekki áhuga annarra liða trufla sig.

Fyrir sléttum 598 dögum síðan varð Viktor Bjarki, þá fimmtán ára gamall, yngsti marka­skorarinn í sögu Fram í efstu deild er hann skoraði gegn Val í Bestu deildinni.

Síðan þá hefur hann tekið skrefið til danska stór­veldisins FC Kaup­manna­hafnar, unnið sig upp í aðalliðið og gert sig þar gildandi, spilað í stærstu deild heims, Meistara­deild Evrópu og þar hirti hann met af gull­drengnum Lamine Yamal hjá Barcelona sem yngsti leik­maðurinn til að skora fleiri en eitt mark í deildinni aðeins sau­tján ára gamall.

„Þetta var planið þegar að ég fór út á sínum tíma,“ segir Viktor Bjarki í sam­tali við íþrótta­deild Sýnar. „Ég ætlaði að gera mig gildandi með FC Kaup­manna­höfn en það gerðist hraðar en ég hafði gert mér ráð fyrir.“

Elskar pressuna

Í gær var greint frá því að Viktor hefði að fullu verið tekinn inn í leik­manna­hóp aðalliðs FC Kaup­manna­hafnar, verðskuldað hjá drengnum unga. Það fylgir því pressa að spila fyrir lið á borð við FC Kaup­manna­höfn þar sem að kröfurnar eru miklar.

„En ég elska pressuna. Maður vill frekar spila með pressu á sér heldur en enga pressu yfir höfuð. Mér finnst það frábær til­finning sem því fylgir að spila á heima­velli fyrir framan þrjátíu þúsund manns og reyna vinna alla titla sem í boði eru.“

Viktor Bjarki í baráttunni gegn Villarreal í Meistaradeildinni á dögunumVísir/Getty

Viktor hefur komið að níu mörkum í fjórtán leikjum með aðalliði FC Kaup­manna­hafnar, þar af skorað sex.

„Ég er að fá traustið svona ungur en samt var þetta planið hjá mér um leið og ég fékk tækifæri með aðalliðinu. Að sýna hvað ég get gert, grípa öll tækifæri sem gefast og ég er búinn að gera það síðustu mánuði.

Nýtur góðs af því að hafa pabba hjá sér

Hann hefur aðlagast lífinu í Kaup­manna­höfn vel, er farinn að skilja dönskuna og er byrjaður að tjá sig með henni. Þá nýtur hann þess að hafa föður sinn hjá sér í Dan­mörku.

„Það er auðvitað geggjað að hafa ein­hvern hjá sér, kannski sér í lagi ef það gengur ekkert allt of vel hjá manni í leikjum eða eitt­hvað stress gerir vart um sig. Þá er alltaf fínt að koma heim og geta talað við ein­hvern um það. Það gerir ferlið auðveldara. Það er mjög gott að geta stólað á það.“

Skilur hlið þjálfarans

Í dönskum miðlum hefur maður séð kallað eftir því að Viktor Bjarki fái fleiri tækifæri í byrjunar­liði FC Kaup­manna­hafnar, ein­hverjir byrjunar­liðs­leikir eru komnir á feril­skránna en Ís­lendingurinn hefur oftar en ekki komið inn af krafti sem varamaður í liðinu.

Jacob Neestrup, þjálfari FC Kaup­manna­hafnar segist hafa lært af biturri reynslu með lands­liðs­fyrir­liðann Orra Stein Óskars­son á sínum tíma og sé því að ein­hverju leiti að vernda Viktor Bjarka í þetta skipti.

„Sem fót­bolta­maður viltu byrja alla leiki. Sama hversu gamall þú ert þá viltu sýna öllum stuðnings­mönnunum og leik­mönnum að þú getir þetta í hverri viku. En auðvitað skil ég hans hlið. Ég er ungur leik­maður að koma upp í fyrsta skipti, að spila á hæsta gæða­stiginu. Auðvitað skil ég ein­hvern part af því að vilja vernda unga leik­menn fyrir um­talinu en fyrir mig fót­bolta­mann er ég bara í þessu til að spila fót­bolta og er alltaf til­búinn að byrja að koma inn á í öllum leikjum.“

Sjálfur er Viktor ekki mikið að lesa það sem um hann er skrifað í fjölmiðlum þó hann sé þakk­látur fyrir það hrós sem hann hefur fengið til þessa.

„Ég kíki á miðlana og sé mig en er svolítið hættur að lesa fréttirnar. Auðvitað kemur upp góð og slæm fjölmiðlaum­fjöllun. Ég sé þetta og það er gaman að fylgjast með þessu en ég les þetta oftast ekki.“

Viktor Bjarki Daðason á ferðinni gegn Kairat í Meistaradeildinni. Það var í þeim leik sem hann sló met Lamine YamalEPA/Ida Marie Odgaard

Hefur um­talið ein­hver áhrif á þig?

„Það hjálpar alveg að fá hrós frá ein­hverjum fjölmiðlum þannig séð upp á sjálf­s­traustið að gera en það hjálpar mér ekkert beint inn á vellinum. Það er flott að heyra þetta en ég reyni að pæla ekki mikið í þessu.“

Framundan stórleikir við Napólí og Barcelona

Gengi FC Kaup­manna­hafnar í dönsku deildinni hefur verið fyrir neðan væntingar og er liðið nú í 5.sæti tölu­vert frá topp­liðinu. Staða liðsins í Meistara­deild Evrópu er hins vegar áhuga­verð og á liðið mögu­leika á að tryggja sér um­spilssæti fyrir 16-liða úr­slitin.

Hvernig meturðu mögu­leika ykkar í Meistara­deildinni?

„Við eigum örugg­lega stærstu leikina eftir núna eftir áramót á móti Napólí og Barcelona. En ég meina, ég tel bara góðar líkur á því að við getum strítt þessum liðum, sér í lagi á heima­velli gegn Napólí. Það getur allt gerst á Parken. Ef við spilum okkar leik þá getur allt gerst í Meistara­deildinni.“

Strákurinn sem steig sín fyrstu skref í Bestu deildinni í fyrra að tala um komandi and­stæðinga í liði Napóli og Barcelona, stór­lið á evrópskum mæli­kvarða.

„Það er rosa­legt að tala um lið eins og Napólí og Barcelona og vera að fara spila á móti þeim í Meistara­deildinni. Þetta var auðvitað planið að spila á móti svona sterkum and­stæðingum en að fara gera það er bara á allt öðru stigi.

Finnur fyrir áhuga en er einbeittur á Köben

Góðri frammistöðu svona ungs leik­manns fylgir meira um­tal og Viktor Bjarki hefur fengið að heyra af áhuga annara liða.

„Já það hefur komið áhugi annars staðar frá. Ég hef heyrt af slíkum áhuga en hugsa ekkert út í það núna. FC Kaup­manna­höfn er bara mitt lið, ég vil spila meira þar. Það er það eina sem ég hugsa um.“

Er þetta áhugi frá liðum í þessum topp fimm deildum Evrópu?

„Ég bara veit það ekki. Ég hef heyrt af áhuga annara liða en veit ekki hvaða lið um ræðir. Þegar að maður er ungur og það gengur vel þá eru ein­hver lið sem horfa á þig en ég veit ekki hvaða lið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×