Enski boltinn

For­sætis­ráð­herrann hótar Roman Abramovich og segir að „klukkan tifi“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roman Abramovich var eigandinn þegar Chelsea vann Meistaradeildina árið 2021 og hér er hann með bikarinn og með Cesar Azpilicueta fyrirliða.
Roman Abramovich var eigandinn þegar Chelsea vann Meistaradeildina árið 2021 og hér er hann með bikarinn og með Cesar Azpilicueta fyrirliða. Getty/Alex Livesey

Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands hefur varað Roman Abramovich við því að tíminn sé að renna út fyrir hann að gefa andvirði sölu Chelsea til Úkraínu.

Starmer sagði þingmönnum á miðvikudag að ráðherrar hefðu gefið út leyfi sem heimilar að andvirði sölu Chelsea verði millifært til nýrrar stofnunar fyrir mannúðarmál í Úkraínu.

Hann sagði: „Skilaboð mín til Abramovich eru þessi: klukkan tifar.“

„Stattu við skuldbindinguna sem þú gafst og borgaðu núna, og ef þú gerir það ekki erum við reiðubúin að fara fyrir dómstóla svo að hver einasta króna berist þeim sem hafa séð líf sitt í rúst vegna ólöglegs stríðs Pútíns,“ sagði Keir Starmer.

Abramovich seldi félagið í maí 2022 eftir að hann var beittur refsiaðgerðum í kjölfar innrásar Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta fyrr á því ári.

Auðjöfurinn hafði heitið því að gefa andvirði sölunnar til íbúa Úkraínu, en honum hefur hingað til ekki tekist að ná samkomulagi við ríkisstjórnina um framhaldið og fjármunirnir eru enn frystir.

Downingstræti sagði að Abramovich hefði mótmælt kröfu ríkisstjórnarinnar um að peningunum yrði eingöngu varið í Úkraínu.

Ákvörðun miðvikudagsins um að veita leyfi fyrir millifærslunni er tilraun til að þvinga Abramovich til að standa við loforð sitt áður en ríkisstjórnin grípur til lagalegra aðgerða.

Talið er að ríkisstjórnin búist við því að Abramovich bregðist við á næstu mánuðum, þó að hún virðist ekki hafa sett ákveðinn frest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×