Enski boltinn

Biðin mikla hjá Unai Emery tók að­eins nokkrar sekúndur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Unai Emery og Mikel Arteta heilsuðust fyrir leikinn en þeir náðu ekki að endurtaka það eftir hann.
Unai Emery og Mikel Arteta heilsuðust fyrir leikinn en þeir náðu ekki að endurtaka það eftir hann. Getty/David Price

Unai Emery knattspyrnustjóri Aston Villa neitaði því að hafa sniðgengið Mikel Arteta, stjóra Arsenal, eftir leik Aston Villa og toppliðs ensku úrvalsdeildarinnar á Emirates-leikvanginum.

Myndir náðust af Arteta grípa í tómt þegar hann ætlaði að þakka fyrir leikinn en þær segja ekki nærri því alla söguna að mati Emery.

Ellefu leikja sigurgöngu Villa lauk á þriðjudagskvöldið þegar Arsenal fór á kostum og vann 4-1 sigur eftir að hafa átt frábæran seinni hálfleik.

Fjögur mörk í seinni hálfleik frá Gabriel Magalhães, Martín Zubimendi, Leandro Trossard og Gabriel Jesus tryggðu skytturnum fimm stiga forystu á toppi deildarinnar. Ollie Watkins náði að skora sárabótarmark í uppbótartíma en þá voru örlög Villa löngu ráðin.

Atvikið sem um ræðir átti sér stað skömmu eftir leikslok þegar Emery sást flýta sér inn í göngin án þess að takast í hendur við Arteta, eins og venja er meðal knattspyrnustjóra eftir leik.

Þegar Emery var spurður út í þennan meinta sniðgang útskýrði hann ákveðið: „Já, en þetta er einfalt. Þið getið horft á þetta sjálf. Eftir leik er rútínan mín alltaf sú að flýta mér, þakka hinum stjóranum fyrir leikinn og fara til þjálfaranna minna, leikmannanna minna eða inn í búningsklefa,“ sagði Emery.

„Og ég beið og ég beið. Auðvitað var hann ánægður og var með þjálfurunum sínum og ég ákvað að fara inn. En fyrir mér er þetta ekkert vandamál,“ sagði Emery.

Þrátt fyrir að Arteta hafi sést bíða eftir Emery við hliðarlínuna eftir leikinn sagði hann að handabandið sem ekki varð af væri ekki vandamál.

„Nei, það er allt í lagi. Þetta er hluti af leiknum, ekkert mál,“ sagði knattspyrnustjóri Arsenal á blaðamannafundi.

Eins og sjá má hér fyrir ofan og neðan þá var biðin mikla hjá Unai Emery í raun aðeins nokkrar sekúndur því hann strunsaði nánast strax inn í klefa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×