Handbolti

„Viljum sanna við eigum heima meðal þeirra bestu“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gísli Þorgeir hefur trú en er með báða fætur á jörðinni.
Gísli Þorgeir hefur trú en er með báða fætur á jörðinni. vísir/vpe

„Það er mikill fiðringur. Koma á gamla, góða hótelið. Sjá hin liðin. Það er alltaf ákveðin spenna í loftinu þegar mótin eru að byrja,“ segir leikstjórnandinn Gísli Þorgeir Kristjánsson og augljóslega spenntur að hefja leik í kvöld.

Fyrsti andstæðingur Íslands í Kristianstad er Ítalía. Lið á uppleið og spilar óhefðbundinn handbolta sem getur verið erfitt að glíma við.

Klippa: Gísli vill að liðið sanni sig meðal þeirra bestu

„Í rauninni erum við að rýna í hvernig þeir eru að spila. Svo erum við með okkar áætlun. Ég er mjög sáttur við undirbúninginn fyrir leikinn og bara í heild. Við mætum með kassann úti í mótið,“ segir Gísli Þorgeir brattur en hvað með pressuna?

„Maður verður alveg var við þetta. Ég væri að ljúga ef ég segði annað. Svo er undir okkur komið að standa okkur. Að segja að einhver leið sé greið í undanúrslit og svona er algjört bull. Erum ekki búnir að vinna neitt og höfum ekki verið á topp átta á síðustu mótum. Við vitum það best sjálfir að við getum unnið öll lið en ef hausinn er ekki á réttum stað getum við líka tapað fyrir öllum.“

Það vita allir hversu góðir leikmenn Íslands eru. Það er utanaðkomandi pressa en er pressa innan liðsins líka?

„Ég held að það sé bara keppnisskap í okkur að vilja gera betur en síðast. Viljum sanna fyrir okkur sjálfum að við eigum heima meðal þeirra bestu. Það er eitt að tala en annað að gera.“


Tengdar fréttir

„Geri mér vonir um að þetta verði mótið þar sem allt smellur“

„Það er bara fín tilfinning að vera orðinn einn af gömlu mönnunum í landsliðinu. Ég hef svo sem verið það í nokkur ár en tilfinningin er góð,“ segir hornamaðurinn Bjarki Már Elísson sem þarf að axla ábyrgð innan sem utan vallar á EM í Svíþjóð.

Ekki innistæða fyrir því að vera kokhraustir

„Það er kominn fiðringur og spenningur,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari karla í handbolta, fyrir fyrsta leik liðsins á EM sem fram fer í dag.

EM í dag: Sushi og sjónskekkja í Svíþjóð

Enn eitt stórmótið í janúar fer að bresta á og fulltrúar Sýnar og Vísis láta sig ekki vanta. Hitað var upp fyrir fyrsta leik Íslands á EM sem er við Ítali á morgun.

„Þetta er ekki flókið“

Ómar Ingi Magnússon er landsliðsfyrirliði Íslands á komandi Evrópumóti sem hefst með leik við Ítali á morgun. Hann er klár í slaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×