Handbolti

„Núna er allt betra“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Einar Þorsteinn steig upp í fjarveru lykilmanna.
Einar Þorsteinn steig upp í fjarveru lykilmanna. Vísir/Sýn Sport

Einar Þorsteinn Ólafsson steig heldur betur upp þegar lykilmenn í vörn íslenska karlalandsliðsins í handbolta þurftu frá að hverfa í kvöld.

Einar lék mun stærra hlutverk en flestir gerðu ráð fyrir í eins marks sigri Íslands gegn Ungverjum á EM í handbolta í kvöld, eftir að Elvar Örn Jónsson meiddist og Ýmir Örn Gíslason fékk að líta beint rautt spjald.

„Extra sætt í kvöld, ertu að grínast? Maður er búinn að þurfa að upplifa það síðan maður var krakki að tapa þessum stóru leikjum á móti Ungverjum þannig það er ógeðslega flott að ná að bíta til baka.“

Einar hefur eytt mestum sínum tíma í einangrun uppi á hótelherbergi eftir komuna til Svíþjóðar vegna veikinda, en segist allur vera að koma til.

„Heilsan? Hún er á uppleið. Ég held að það sé hægt að segja það. Þessir seinustu dagar eru búnir að vera ógeðslegir. Einn inni í herbergi, einangraður og var ekki viss hvort ég myndi endilega fá að vera með í hóp í dag, en einhvernveginn endaði þetta svona. Núna er allt betra.“

Dagarnir inni á hótelherbergi hafi tekið á.

„Ég hef aldrei verið svona slappur á ævinni held ég bara. Sem betur fer er allt staffið og Þorkell læknir búin að passa upp á mig og koma mér ógeðslega hratt í gang, miðað við hvað ég er búinn að vera slappur. Það má eiginlega þakka þeim fyrir að ég hafi spilað.“

Þá segist hann meðvitaður um að mikið hafi þurft að ganga á til að hann myndi fá tækifæri til að sanna sig í kvöld. Það er þó óhætt að segja að hann hafi gripið gæsina.

„Það þurfti mikið að ske. Ég viðurkenni að ég var stressaður því ég var ekki búinn að snerta handbolta í fimm daga. Fyrstu mínúturnar voru alvöru „wake up call“ þar sem ég var bara fintaður í spað í fyrstu sókn af besta leikmanninum þeirra. Maður þarf að vakna, en maður getur gert það í svona leik og þá er maður fljótur í „autopilot“ getur maður sagt.“

Þá lá ekki á svörum þegar Einar var spurður hvað þessi sigur myndi gefa liðinu fyrir framhaldið.

„Þetta gefur okkur rosa mikið vonandi. Þetta gefur okkur tvö stig og ég held að það sé mikilvægast,“ sagði Einar að lokum.

Klippa: Einar Þorsteinn eftir sigurinn gegn Ungverjum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×