Handbolti

Elvar úr leik á EM

Valur Páll Eiríksson skrifar
Elvar Örn meiddist í sigrinum á Ungverjum í gær og mun ekki spila meira á yfirstandandi móti.
Elvar Örn meiddist í sigrinum á Ungverjum í gær og mun ekki spila meira á yfirstandandi móti. EPA/CHRISTOPHER NEUNDORF

Elvar Örn Jónsson tekur ekki frekari þátt á Evrópumóti karla í handbolta eftir að hafa meiðst í 24-23 sigri Íslands á Ungverjalandi í lokaleik liðsins í riðlakeppninni í gærkvöld.

HSÍ staðfesti tíðindin í tilkynningu til fjölmiðla nú í morgun.

Elvar Örn meiddist seint í fyrri hálfleik og ljóst þá strax að meiðslin litu ekki vel út. Enda þarf mikið til að halda Elvari utan vallar.

Hann spilaði ekkert eftir hléið og kom í ljós að hann þarf að fara í aðgerð vegna meiðsla í hönd. Það er því ljóst að hann spilar ekki frekar á yfirstandandi móti og mun hann halda til Íslands í aðgerð á morgun.

Ljóst er að um mikið högg er að ræða fyrir íslenska liðið enda Elvar einn allra besti varnarmaður liðsins.

Í yfirlýsingu HSÍ segir að ekki sé ákveðið hvort annar maður verði kallaður inn í stað Elvars í landsliðshópinn.

Landsliðið fer frá Kristianstad yfir til Malmö í dag þar sem milliriðill liðsins verður leikinn.

Fyrsti leikur í milliriðli er á föstudaginn kemur, þar sem Ísland mætir annað hvort Króatíu eða Svíþjóð, sem eigast við í riðlakeppninni í kvöld.

Yfirlýsing HSÍ:

Elvar Örn Jónsson, leikmaður Magdeburg og A-landsliðs Íslands, verður ekki meira með á Evrópumótinu í ár eftir að hafa meiðst á hendi í leik gærkvöldsins.

Elvar Örn, sem er lykilmaður í íslenska liðinu, mun fara í aðgerð á morgun heima á Íslandi og verður frá keppni um óákveðinn tíma.

Að svo stöddu hefur ekki verið tekin ákvörðun innan íslenska teymisins um að kalla nýjan leikmann inn í hópinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×