Innlent

Mannsins enn saknað

Víðtæk leit að þrjátíu og fjögurra ára gömlum manni, sem enn er saknað eftir að skemmtibátur sökk við Viðey í fyrrinótt, hefst á næstu klukkutímunum. Karlmaður og kona sem gengust undir aðgerð í gær eru bæði á batavegi og úr lífshættu. Klukkan tíu hófst fundur hjá landhelgisgæslunni, björgunarsveitarmönnum, lögreglu og slökkviliði og fljótlega eftir að fundinum lýkur hefst leitin að nýju. Mannsins hefur verið leitað síðan eldsnemma í gærmorgun, en án árangurs. Eitt hundrað björgunarsveitarmenn kembdu fjörur á stórum svæðum þegar háfjara var, en allt kom fyrir ekki, og í gærkvöldi var gert hlé á leitinni. Henni verður háttað eftir sjávarstraumum og sjávarföllum. Háfjara verður klukkan sex í dag. Kona um fimmtugt fannst látin í gær en hinum þremur sem voru í bátnum var bjargað af kili. Það varð þeim til happs að einn þremenninganna, ellefu ára drengur, var með farsíma og hringdi eftir hjálp. Ekki er enn vitað hvað olli slysinu en báturinn virðist hafa strandað á Skarfaskeri og sokkið strax í kjölfarið. Rannsóknardeild lögreglunnar hefur hafið rannsókn á aðdraganda slyssins en þeir sem voru um borð hafa ekki verið ítarlega yfirheyrðir enn sem komið er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×