Formúla 1

Piastri fagnaði þriðja sigrinum í röð

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Oscar Piastri hefur unnið síðustu þrjá kappakstra en liðsfélagi hans Lando Norris vann fyrsta kappakstur ársins.
Oscar Piastri hefur unnið síðustu þrjá kappakstra en liðsfélagi hans Lando Norris vann fyrsta kappakstur ársins. Bryn Lennon - Formula 1/Formula 1 via Getty Images

Oscar Piastri hjá McLaren vann sig upp úr fjórða sæti og fagnaði sigri í Miami kappakstrinum í Formúlu 1. Þetta var þriðji sigur Piastri í röð og vænkar stöðu hans verulega í efsta sæti heimslistans.

Max Verstappen hjá Red Bull var á ráspól, fór fyrstur af stað en missti forystuna fljótt frá sér.

Sigurvegarinn Oscar Piastri hjá McLaren vann sig upp og tók fram úr Verstappen á fjórtánda hring.  Liðsfélaginn Lando Norris tók fram úr Verstappen á sautjánda hring.

Verstappen tókst ekki heldur að halda í þriðja sætið, George Russell hjá Mercedes hirti það af honum.

Sigurinn veitir Oscar Piastri sextán stiga forskot á liðsfélaga sinn Lando Norris á heimslista ökuþóra.

Rígur hjá Ferrari

Lewis Hamilton og Charles LeClerc, ökumenn Ferrari, áttu í miklum erjum á meðan kappakstrinum stóð.

Leclerc leyfði Hamilton að taka fram úr sér eftir rifrildi í liðsútvarpinu en Hamilton vildi ekki endurgjalda greiðann. Hamilton gerði það svo að lokum en var greinilega pirraður út í liðstjórana og spurði hvort hann ætti ekki bara líka að hleypa Carlos Sainz hjá Williams fram úr sér.

Hann gerði það ekki en Sainz reyndi samt að taka fram úr og bolaði Hamilton næstum því út af brautinni, en tókst ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×