Enski boltinn

Eig­andi Nott. Forest reifst við Nuno þjálfara inn á vellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Evangelos Marinakis var ekki sáttur eftir leikinn og vildi greinilega að allir vissu af því.
Evangelos Marinakis var ekki sáttur eftir leikinn og vildi greinilega að allir vissu af því. Getty/Michael Regan

Evangelos Marinakis, eigandi Nottingham Forest, strunsaði inn á völlinn eftir jafnteflið við Leicester City í ensku úrvalsdeildinni í dag til að láta Nuno Espirito Santo þjálfara liðsins heyra það.

Jafnteflið á móti föllnu Leicester liði voru mikil vonbrigði fyrir Forest sem er að gefa eftir í baráttunni um Meistaradeildarsæti.

Forest er vissulega búið að tryggja sér sæti í Evrópukeppni í fyrsta sinn í 29 ár en þeir eru að missa af Meistaradeildasæti þar sem þeir hafa setið stóran hluta tímabilsins.

Marinakis var augljóslega mjög pirraður vegna þessara tveggja töpuðu stiga og var ekkert að bíða með það að láta óánægju sína í ljós. ESPN segir frá.

Gary Neville var að lýsa leiknum fyrir Sky Sports og kallaði hegðun eigandans hneyksli.

„Það að eigandi Forest hafi farið inn á völlinn á City Ground eftir leik og látið Nuno heyra það er algjört hneyksli í mínum augum,“ sagði Gary Neville.

„Ef ég væri Nuno þá myndi ég svara fyrir vel fyrir mig því þetta er algjör skandall. Hann var að koma liðinu í Evrópukeppni og eigandinn reynir að láta hann líta illa út fyrir fram stuðningsmennina. Þetta er algjör brandari,“ sagði Neville.

Forest var lengst af í þriðja sætinu á eftir Liverpool og Arsenal en er núna komið niður í sjöunda sætið. Liðið er þó bara einu sæti frá sjötta sætinu þegar tvær umferðir eru eftir.

Þar situr Chelsea og síðasti leikur Forest á leiktíðinni er einmitt á móti Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×