Fótbolti

Stendur ekki steinn yfir steini hjá Orra-lausu Sociedad

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Orri Steinn í leik gegn Barcelona á leiktíðinni.
Orri Steinn í leik gegn Barcelona á leiktíðinni. EPA-EFE/Alejandro Garcia

Real Sociedad tapaði 0-1 fyrir Celta Vigo í La Liga, spænsku úrvalsdeild karla í fótbolta. Um var að ræða fjórða tap liðsins í síðustu sex leikjum. Liðið er aðeins með tvo sigra í síðustu 15 leikjum.

Landsliðsfyrirliðinn Orri Steinn Óskarsson var ekki með Real Sociedad vegna meiðsla. Hann mun ekki leika meira með liðinu á þessari leiktíð. Félagið festi kaup á Orra Steini á lokadegi félagaskiptagluggans eftir frábæra byrjun hans með FC Kaupmannahöfn í Danmörku.

Orri Steinn kom alls við sögu í 37 leikjum Sociedad á leiktíðinni og skoraði í þeim sjö mörk. Innkoma hans gegn Manchester United í fyrri leik liðanna í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar vakti verðskuldaða athygli.

„Innkoma Orra Óskarsson á 63. mínútu leiksins hafði mikil áhrif. Íslendingurinn skapaði færi fyrir sjálfan sig og aðra til að vinna leikinn,“ segir meðal annars í skýrslu UEFA.

Án Orra Steins hefur ekki staðið seinn yfir steini og mátti Sociedad þola enn eitt tapið í kvöld þökk sé marki Alfonso Gonzalez á 44. mínútu leiksins. Tapið þýðir að þegar tvær umferðir eru eftir af La Liga er Sociedad í 12. sæti með 43 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×