Enski boltinn

Dóttir Liams Gallagher á von á barni með guðsyni Guðna Bergs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nathaniel Phillips og Molly Gallagher.
Nathaniel Phillips og Molly Gallagher.

Molly, dóttir Oasis-söngvarans Liams Gallagher, á von á barni með leikmanni Liverpool, Nathaniel Phillips.

Molly birti í gær mynd af þeim Phillips á Instagram þar sem hún heldur um sístækkandi magann.

Molly er dóttir Gallaghers og söngkonunnar Lisu Moorish en hún fæddist í lok mars 1998. Gallagher var þá giftur leikkonunni Patsy Kensit og hann hitti Molly ekki fyrr en hún var tíu ára. Gallagher á alls fjögur börn með fjórum konum.

Molly hefur verið í sambandi með Phillips undanfarin þrjú ár. Hann er uppalinn hjá Liverpool en hefur verið lánaður víða síðustu ár, síðast til Derby County. Phillips hefur leikið 29 leiki fyrir Liverpool, þar af tuttugu tímabilið 2020-21 þegar mikil meiðsli herjuðu á varnarmenn liðsins.

Gallagher er frá Manchester og er sem kunnugt er stuðningsmaður Manchester City. Nóg verður að gera hjá honum í sumar en Oasis er á leið í langþráða tónleikaferð. Liam og eldri bróðir hans og aðallagahöfundur Oasis, Noel, hafa slíðrað sverðin eftir áralangar skærur.

Phillips er sonur Jimmys Phillips, fyrrverandi fótboltamanns. Þess má geta að Guðni Bergsson, fyrrverandi samherji Jimmys hjá Bolton Wanderers, er guðfaðir Phillips.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×