Erlent

Banna „óæski­lega“ starf­semi Am­ne­sty International í Rúss­landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá mótmælum gegn innrás Rússa í Úkraínu sem Amnesty International skipulagði í Lissabon í Portúgal á upphafsdögum stríðsins. Rússar segja samtökin „höfuðstöðvar rússafóbíu“.
Frá mótmælum gegn innrás Rússa í Úkraínu sem Amnesty International skipulagði í Lissabon í Portúgal á upphafsdögum stríðsins. Rússar segja samtökin „höfuðstöðvar rússafóbíu“. Vísir/EPA

Ríkissaksóknari Rússlands tilkynnti í dag að hann hefði bannað starfsemi alþjóðlegu mannréttindasamtakanna Amnesty International í landinu. Samtökin væru óæskileg og styddu Úkraínumenn í stríðinu við Rússa.

Í yfirlýsingu sinni sakaði saksóknarinn Amnesty um að gera allt sem samtökin gætu til þess að stigmagna hernaðarátök í heimshlutanum og að réttlæta „glæpi úkraínskra nýnasista“ auk þess að hvetja til efnahagslegrar einangrunar Rússlands. Stríðsáróður rússneskra stjórnvalda gengur út á að þau berjist gegn „nasistum“ í Úkraínu.

Amnesty hafa skjalfest stríðsglæpi Rússa í innrás þeirra í Úkraínu allt frá upphafi hennar árið 2022. Samtökin hafa jafnframt krafist þess að þeir seku verði dregnir til ábyrgðar. Þau hafa þó einnig deilt á Úkraínu þegar tilefni hefur verið til. 

Í umdeildri skýrslu sem kom út árið 2022 sögðu samtökin að úkraínski herinn hefði brotið alþjóðalög og stefnt óbreyttum borgurum í hættu með aðferðum sínum í stríðinu. Framkvæmdastjóri samtakanna í Úkraínu hætti í kjölfar þess og Volodýrmýr Selenskíj, forseti Úkraínu, gagnrýndi niðurstöðurnar sem Amnesty stóð engu að síður við, að sögn evrópska blaðsins Politico.

Bannið þýðir að allt að fimm ára fangelsisvist liggur við því fyrir rússneska borgara að vinna með eða fjármagna samtök sem sæta slíku banni. Rússnesk stjórnvöld hafa skilgreint fjölda frjálsra félagasamtaka og fjölmiðla sem ýmist öfgasamtök eða útsendara erlendra ríkja til þess að bæla niður allar gagnrýnisraddir heima fyrir, sérstaklega á síðustu árum.

Á meðal annarra alþjóðlegra samtaka sem eru bönnuð í Rússlandi eru umhverfisverndunarsamtökin Grænfriðungar, að því er kemur fram í frétt Reuters-fréttastofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×