Handbolti

Ómar ó­stöðvandi í sigri Magdeburg

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ómar Ingi átti virkilega góðan leik.
Ómar Ingi átti virkilega góðan leik. Javier Borrego/Getty Images

Íslenski landsliðsmaðurinn Ómar Ingi Magnússon átti stórleik fyrir Magdeburg er liðið vann nauman og mikilvægan sigur gegn Eisenach í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Þýskalandsmeistarar Magdeburg eru í harðri baráttu um þýska meistaratitilinn þetta tímabilin og var því búist við því að liðið myndi vinna nokkuð þægilegan sigur gegn Eisenach, sem situr í 11. sæti deildarinnar.

Heimamenn í Magdeburg höfðu yfirhöndina stærstan hluta leiksins, en áttu í stökustu vandræðum með að hrista gestina af sér. Staðan var jöfn þegar flautað var til hálfleiks, 18-18.

Í síðari hálfleik náðu heimamenn betri tökum á leiknum og náðu mest fjögurra marka forskoti. Þannig var munurinn þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka, en þá skoruðu gestirnir fjögur mörk í röð og jöfnuðu metin.

Við tóku jafnar og spennandi lokamínútur, en að lokum voru það heimamenn í Magdeburg sem stóðu uppi sem sigurvegarar, lokatölur 33-32.

Eftir sigurinn situr Magdeburg í þriðja sæti þýsku deildarinnar með 47 stig eftir 29 leiki, þremur stigum minna en toppliðin Füchse Berlin og Melsungen. Magdeburg á þó leik til góða og getur minnkað bilið niður í eitt stig.

Ómar Ingi Magnússon var markahæstur í liði Magdeburg með tíu mörk, en hann gaf einnig tvær stoðsendingar. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvö mörk fyrir liðið og lagði upp önnur fjögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×