Formúla 1

Norris vann í Móna­kó í fyrsta sinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Lando Norris fagnar eftir kappaksturinn í Mónakó í dag.
Lando Norris fagnar eftir kappaksturinn í Mónakó í dag. getty/Clive Rose

Lando Norris á McLaren hrósaði sigri í Mónakó-kappakstrinum í dag. Þetta var áttunda keppni tímabilsins í Formúlu 1.

Það er ávallt sami glamúrinn þegar Mónakó-kappaksturinn fer fram og voru ófáar stjörnurnar sem létu sjá sig á pöllunum. 

Norris var á ráspól, sem er einn mikilvægustu póla leiktíðarinnar þar sem framúrakstrar eru afar sjaldséðir á þröngri götubrautinni í Mónakó. 

Í von um að skapa meiri spennu settu stjórnarmenn Formúlunnar nýja reglu fyrir kappaksturinn í ár þar sem allir ökuþórar þurftu að skipta tvisvar um dekk á meðan honum stóð en jafnan skipta menn aðeins einu sinni á þessari braut. 

Spennan varð þó aldrei mjög mikil í dag. Athygli vakti þegar Pierre Gasly gerði klaufaleg mistök, eyðilagði dekk sitt og kláraði hringinn á þremur dekkjum áður en hann sagði sig úr keppni. 

Eftir að McLaren-mennirnir Norris og Piastri auk Charles Leclerc á Ferrari höfðu allir tekið sín tvö stopp var Max Verstappen fremstur í röðinni og hann geymdi hléið fram á síðustu stundu í von um að geta skipt um dekk á bakvið öryggisbíl og þannig haldið efsta sætinu. 

Það varð hins vegar ekki af því, Max Verstappen fór inn og fékk nýjan umgang á lokahringnum, Norris tók við forystunni og kom fyrstur í mark. Norris fagnaði því sigri í Mónakó í fyrsta sinn, Leclerc varð annar en Piastri þriðji. 

Staðan jafnast mjög í keppni ökuþóra þar sem Norris er nú, eftir fyrsta sigurinn síðan í fyrstu umferð, aðeins þremur stigum á eftir liðsfélaganum Piastri. Verstappen lenti í 4. sæti og er þriðji í stigakeppninni. Næsti kappakstur er strax næstu helgi í Barcelona á Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×