Enski boltinn

Yfir­lýsing frá Liverpool: „Ó­lýsan­legur missir“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jota í leik með Liverpool í febrúar síðastliðnum.
Jota í leik með Liverpool í febrúar síðastliðnum. Liverpool FC/Liverpool FC via Getty Images

Liverpool, lið portúgalska knattspyrnumannsins Diogo Jota, hefur birt yfirlýsingu vegna skyndilegs fráfalls Jota og bróður hans André Silva í bílslysi á Spáni í nótt.

Yfirlýsing félagsins er stuttorð þar sem lýst er yfir mikilli sorg vegna andláts bræðranna. Félagið biðji um að friðhelgi fjölskyldu þeirra verði virt. Liverpool sýni fjölskyldunni fullan stuðning vegna ólýsanlegs missis.

Jota og Silva létust í bílslysi í nótt á A-52 þjóðveginum í Zamora-héraði á Spáni, rétt norðan við Portúgal. Jota var 28 ára gamall en Silva tveimur árum yngri. Jota hefur leikið 49 landsleiki fyrir hönd portúgalska landsliðsins en Silva lék fyrir Penafiel í Portúgal.

Portúgalska knattspyrnusambandið sendi frá sér tilkynningu í morgun þar sem missirinn af þeim bræðrum er sagður óbætanlegur. Sambandið muni gera allt til að heiðra arfleifð þeirra.

Sambandið hefur einnig beðið Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, um að halda mínútu þögn fyrir leik kvennalandsliðs Portúgal við Spán á EM kvenna í fótbolta í kvöld.

Jota giftist Rute Cardoso fyrir einungis tíu dögum síðan og lætur eftir sig þrjú börn, fædd árin 2021, 2023 og 2024.

Jota lék 182 leiki fyrir Liverpool og lék fyrir félagið síðustu fimm ár fótboltaferils síns. Hann varð enskur meistari með liðinu í vor og vann auk þess bæði FA-bikarinn og enska deildabikarinn árið 2022.

Yfirlýsing Liverpool

Knattspyrnufélagið Liverpool er miður sín vegna hörmulegs andláts Diogo Jota.

Félaginu hefur verið tilkynnt að 28 ára gamli leikmaðurinn hafi látist eftir umferðarslys á Spáni ásamt bróður sínum, Andre.

Liverpool FC mun ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu og biður um friðhelgi fjölskyldu, vina, liðsfélaga og starfsfólks Diogo og Andre á meðan þau reyna að sætta sig við ólýsanlegan missi.

Við munum halda áfram að veita þeim okkar fulla stuðning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×