Íslenski boltinn

Allison með fyrsta markið á nýjum Hásteinsvelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eyjakonur eru í góðum málum á toppi Lengjudeildar kvenna.
Eyjakonur eru í góðum málum á toppi Lengjudeildar kvenna. ÍBV stelpur

Eyjakonur vígðu nýtt gervigras á Hásteinsvelli í kvöld með 5-1 stórsigri á sameiginlegu liði Grindavíkur og Njarðvíkur í Lengjudeild kvenna.

Þetta var fyrsti leikurinn á vellinum síðan að grasinu var skipt út en karlarnir spila sinn fyrsta leik á morgun.

Eyjakonur hafa verið á miklu skriði að undanförnu en þetta var fjórði deildarsigur liðsins í röð og sá áttundi í tíu leikjum í sumar.

ÍBV er með sex stiga forskot á HK á toppi deildarinnar en hefur líka skorað tuttugu mörkum meira en Kópavogsliðið.

Allison Grace Lowre skoraði fyrsta markið á nýjum Hásteinsvelli þegar hún kom ÍBV í 1-0 á 28. mínútu.

Þremur mínútum síðar skoruðu gestirnir sjálfsmark og Allison Patricia Clark kom Eyjakonum síðan í 3-0 á 38. mínútu. Grindavík/Njarðvík minnkaði muninn á 44. mínútu með marki Danai Kaldaridou.

Allison Grace Lowre skoraði sitt annað mark á 61. mínútu og Milena Mihaela Patru innsiglaði sigurinn með fimmta markinu á 88. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×