Fótbolti

Landsliðskonurnar neita að æfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Landsliðskonur Úrúgvæ birtu þessa mynd með færslu sinni um að þær neita að æfa.
Landsliðskonur Úrúgvæ birtu þessa mynd með færslu sinni um að þær neita að æfa. Las Celestes

Kvennalandslið Úrúgvæ í fótbolta stendur í mikilli baráttu utan vallar aðeins nokkrum dögum fyrir þátttöku þeirra í Suðurameríkukeppni landsliða.

Suðurameríkukeppnin fer að þessu sinni fram í Ekvador og stendur frá 11. júlí til 2. ágúst. Tíu þjóðir keppa á mótinu og þar á meðal er Úrúgvæ sem er með í áttunda skiptið.

Úrúgvæsku landsliðskonurnar standa í stórræðum utan vallar fimm dögum fyrir fyrsta leik. Þær neita að æfa þegar liðið ætti að vera á fullu að undirbúa sig fyrir mótið.

Ástæðan er að þær heimta jafnrétti og að þær fái miklu betri umgjörð eins og karlalandslið Úrúgvæ tekur sem sjálfsögðum hlut.

„Við neitum að æfa í dag af því að við höfum ekki fengið jákvæð viðbrögð við kröfum okkar um betri aðbúnað. Þetta sýnir ekki ástríðuleysi okkar heldur miklu frekar ástríðu okkar fyrir því að fá sanngjarna meðferð,“ segir í yfirlýsingu frá landsliðskonunum.

„Við viljum allar spila fyrir Úrúgvæ í Copa America en um leið eigum við allar skilið sanngjarna meðferð fyrir það sem við erum að leggja á okkur fyrir þjóð okkar,“ segir í yfirlýsingunni.

Úrúgvæ er í riði með Ekvador, Argentínu, Síle og Peru á mótinu en fyrsti leikurinn er á móti heimakonum í Ekvador 11. júlí næstkomandi.

Besti árangur Úrúgvæ í Suðurameríkukeppninni er þriðja sætið sem liðið náði árið 2006 en í síðustu keppni, árið 2022, endaði Úrúgvæ næst neðst í sínum riðli og komst ekki áfram í útsláttarkeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×