Íslenski boltinn

Óli Jóh skelli­hló að við­tali Heimis

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ólafi var mjög skemmt yfir pirringi fyrrum félaga.
Ólafi var mjög skemmt yfir pirringi fyrrum félaga. Skjáskot/Sýn Sport

Fyrrum þjálfarinn Ólafur Jóhannesson var sérfræðingur Sýnar Sport í kringum leik FH og Stjörnunnar í Bestu deild karla í fótbolta í gær. Hann réði sér vart fyrir kæti yfir viðtali fyrrum samstarfsfélaga hans, Heimis Guðjónssonar, þjálfara FH, eftir leik.

Heimir vandaði Helga Mikael Jónassyni, dómara leiksins, ekki kveðjurnar í viðtali við Ágúst Orra Arnarson eftir leik en Stjarnan skoraði eina mark sitt í 1-1 jafnteflinu úr heldur ódýrri vítaspyrnu. Heimir fékk að sjá atvikið í viðtali gærkvöldsins og þótti kýrskýrt að ekki hefði verið brotið á Andra Rúnari Bjarnasyni sem fiskaði spyrnuna og skoraði svo úr henni sjálfur.

„Mér finnst þetta aldrei víti. Við sjáum það her, mér finnst hann bara sparka í Tomma (Tómas Orra). Mér finnst þetta aldrei vera víti,“ sagði Heimir.

„Ég hef alltaf sagt það og er búinn að segja það núna í þrjú ár, þetta snýst um þekkingu. Því miður á þessum þrem árum, þá hafa dómararnir ekki bætt sig í þekkingunni. Það þarf að fara skoða það,“ sagði Heimir sem sagði þó vera fína dómara í Bestu deildinni.

Aðspurður hvort Helgi Mikael væri einn þeirra var svarið einfalt: „Nei“.

Óli sprakk úr hlátri

Henry Birgir Gunnarsson og Ólafur Jóhannesson tóku þá við boltanum í Subway-settinu eftir viðtalið og sjá mátti að Ólafur skemmti sér konunglega yfir viðtali Heimis og var enn hlæjandi þegar þeir félagar birtust í mynd.

Klippa: Óli Jó skellihlær að Heimi

Ólafur og Heimir þekkjast vel en Heimir lék undir stjórn Ólafs hjá FH um nokkurra ára skeið og var einnig aðstoðarþjálfari Ólafs áður en hann tók alfarið við sem aðalþjálfari liðsins á sínum tíma.

„Þarna var reynslumikill þjálfari að tala og var eflaust að sækja sér inn einhverja punkta fyrir komandi leiki,“ sagði Ólafur í kjölfarið.

Aðspurður hvort hann hefði kennt Heimi þetta sagði hann:

„Það held ég nú ekki. Ég hef nú alltaf talað vel um dómarana. En hann áttaði sig líklega á því í miðju viðtalinu að hann hafi verið kominn í smá ógöngur,“ sagði Ólafur léttur.

Viðtalið og umræðuna má sjá í spilaranum að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×