Fótbolti

Fagnaði ekki mörkunum tveimur gegn upp­eldis­félaginu

Siggeir Ævarsson skrifar
Joao Pedro stillti fagnaðarlátunum í hóf
Joao Pedro stillti fagnaðarlátunum í hóf Vísir/Getty

Joao Pedro fékk sannkallaða draumabyrjun í sínum fyrsta byrjunarliðsleik með Chelsea þegar hann skoraði bæði mörk liðsins í 2-0 sigri á Fluminense í undanúrslitum heimsmeistaramóts félagsliða en mörkunum fylgdu þó blendnar tilfinningar.

Fluminense er uppeldisfélag Pedro og lék hann með unglingaliði liðsins 2011-19 áður og síðan eitt tímabil með aðalliðinu áður en hann færði sig yfir til Englands.

Hann var spurður fyrir leik hvort hann myndi fagna ef hann myndi skora í leiknum sem hann svaraði neitandi.

„Nei, ég held ekki. Þetta snýst ekki um að binda enda á sigurvonir einhverra heldur um að sinna vinnunni minni. Ég þarf að vinna mína vinnu. Ég er auðvitað mjög þakklátur fyrir allt sem Fluminense gerði fyrir mig en það þýðir ekki að ég sinni ekki mínu hlutverki.“

Hann var einnig til viðtals eftir leik.

„Ég er mjög ánægður með að hafa skorað mín fyrstu mörk fyrir Chelsea þó ég viti vel að þessi keppni er mjög mikilvæg fyrir Fluminense. Ég get beðist afsökunar en ég verð að vera fagmannlegur. Ég spila fyrir Chelsea. Þeir borga mér fyrir að skora mörk.“

Þó svo að Pedro fái vissulega borgað frá Chelsea þá má segja að hann hafi borgað liðinu ríkulega til baka með mörkunum en sæti í úrslitunum tryggir Chelsea 22 milljónir punda, ofan á þær 60 milljónir sem liðið hefur þegar tryggt sér á mótinu en kaupverðið á Pedro var einmitt 60 milljónir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×