Fótbolti

Wenger á allt annarri skoðun en Klopp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp ræðir málin við Arsene Wenger þegar Wenger heimsótti æfingu Liverpool þegar Klopp var enn við stjórnvölinn.
Jürgen Klopp ræðir málin við Arsene Wenger þegar Wenger heimsótti æfingu Liverpool þegar Klopp var enn við stjórnvölinn. Getty/Andrew Powell

Heimsmeistarakeppni félagsliða er að ljúka en aðeins úrslitaleikurinn er eftir. Keppnin sem Jürgen Klopp hatar en Arsene Wenger hrósar.

Klopp talaði um HM félagsliða sem verstu hugmynd sem einhver hefur fengið í fótboltaheiminum. Enn meira álag á leikmenn sem voru þegar undir miklu álagi.

Klopp spáir meiðslahrinu hjá liðunum sem þurftu að spila á HM í Bandaríkjunum.

Wenger er algjörlega ósammála. „Allir hafa rétt á sinni skoðun en ég er á allt annarri skoðun en Klopp. Mér fannst að heimsmeistarakeppni félagsliða, sem alvöru heimsmeistarakeppni, væri nauðsynleg,“ sagði Wenger.

„Ef þú spyrð félögin sem voru hér þá er ég hundrað prósent viss um að þau vilji gera þetta aftur,“ sagði Wenger.

Hann notar áhorfendatölur sem rök fyrir vel heppnaðri keppni.

„Mikilvægasta atriðið er hvort stuðningsfólkið sé ánægt með keppnina. Spárnar fyrir áhorfendaaðsóknina voru lágar en í raun var mætingin miklu betri. Þar höfum við svarið,“ sagði Wenger en bauð þó ekki upp á neina tölur.

Wenger er auðvitað fyrir löngu orðin mikill FIFA maður og var meðal annars í tækninefnd heimsmeistarakeppninnar og því þarf það ekki að koma á óvart að hann tali fyrir keppninni.

Stóra svarið mun koma á komandi leiktíð. Þá sjáum við ástandið á þeim leikmönnum sem voru að bæta þessum leikjum á HM félagsliða við annars mjög langt tímabili. Þolir skrokkurinn álagið eða munu þeir hrynja niður í meiðsli. Þá væri kannski betri að spyrja Wenger sömu spurningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×