Fótbolti

Crystal Palace fær ekki að spila í Evrópudeildinni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Fyrir rúmum mánuði síðan fögnuðu aðdáendur Crystal Palace því að hafa komist í Evrópudeildina.
Fyrir rúmum mánuði síðan fögnuðu aðdáendur Crystal Palace því að hafa komist í Evrópudeildina. Crystal Pix/MB Media/Getty Images

Evrópska knattspyrnusambandið hefur fært Crystal Palace niður úr Evrópudeildinni í Sambandsdeildina, vegna þess að félagið er undir sama eignarhaldi og Lyon sem endurheimti Evrópudeildarsæti sitt í fyrradag.

Breska ríkisútvarpið greinir frá ákvörðuninni. Crystal Palace hefur rétt til að áfrýja ákvörðun UEFA til alþjóða íþróttadómstólsins og mun gera það.

Samkvæmt reglum UEFA mega tvö félög undir sama eignarhaldi ekki spila í sömu Evrópukeppni, en undanþága er veitt ef félögin lúta ekki undir sömu stjórn.

Crystal Palace tryggði sér þátttökurétt með því að vinna FA bikarinn á Englandi en verður að víkja vegna þess að Lyon endaði í hærra deildarsæti heima fyrir í Frakklandi.

John Textor á meirihluta í Lyon og hlut í Crystal Palace. Enska félagið heldur því fram að Textor sé ekki með stjórnarvöld hjá félaginu, en hefur ekki tekist að sannfæra UEFA um það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×