Enski boltinn

Eig­endur Burnley eignast hitt liðið í Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margir Bandaríkjamenn og þá sérstaklega áhugamenn um ameríska fótboltann, þekkja enska fótboltafélagið Burnley vel vegna J.J. Watt.
Margir Bandaríkjamenn og þá sérstaklega áhugamenn um ameríska fótboltann, þekkja enska fótboltafélagið Burnley vel vegna J.J. Watt. Getty/Nathan Stirk/

Eigendahópur enska úrvalsdeildarfélagsins Burnley er að stækka við sig í fótboltaheiminum. Þeir eru að taka yfir annað félag mun sunnar á hnettinum.

Ameríska fótboltastjarnan J.J. Watt er minnihlutaeigandi í Burnley og hann hefur verið duglegur að auglýsa enska félagið á samfélagsmiðlum sínum.

Nú eru Watt og félagar hans í eigendahópnum Velocity Sport Limited að taka yfir spænska félagið Espanyol. Þeir kaupa hlutina af kínverska eigendahópnum The Rastar Group.

Chen Yansheng og félagar í kínverska eigendahópnum eru orðnir mjög óvinsælir meðal stuðningsmanna Espanyol en þeir eignuðust félagið árið 2015. Á þeim tíma hefur Espanyol tvisvar fallið úr spænsku deildinni.

Espanyol er minna félagið í Barcelona og endað í fjórtánda sæti af tuttugu liðum á síðustu leiktíð. Liðið hefur aldrei unnið spænska meistaratitilinn en hefur fjórum sinnum orðið bikarmeistari, síðast 2006.

Það fylgir fréttunum að bæði Espanyol og Burnley munu starfa algjörlega sjálfstætt frá hvoru öðru þrátt fyrir sömu eigendur.

Burnley vann sér aftur sæti í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð með því að ná öðru sætinu í ensku b-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×