Fótbolti

Mætti inn á með brúð­kaups­myndina á legg­hlífinni og breytti leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hetjur enska landsliðsins í gær. Hannah Hampton markvörður sem fór á kostum í vítakeppninni og Chloe Kelly sem breytti leiknum um leið og hún kom inn á völlinn.
Hetjur enska landsliðsins í gær. Hannah Hampton markvörður sem fór á kostum í vítakeppninni og Chloe Kelly sem breytti leiknum um leið og hún kom inn á völlinn. Getty/Maja Hitij

Enska knattspyrnukonan Chloe Kelly átti magnaða innkomu í gærkvöldi í endurkomu enska landsliðsins í átta liða úrslitum Evrópumótsins í Sviss.

Kelly kom inn á sem varamaður á 78. mínútu þegar Svíþjóð var 2-0 yfir á móti enska landsliðinu. Það tók hana ekki langan tíma að breyta leiknum.

Mínútu síðar var hún búin að leggja upp mark fyrir Lucy Bronze og Kelly átti síðan risaþátt í jöfnunarmark Michelle Agyemang á 81. mínútu. Boltinn féll fyrir Agyemang eftir fyrirgjöf Kelly.

Leikurinn endaði 2-2 og fór í ótrúlega vítaspyrnukeppni þar sem leikmenn nýttu aðeins fimm af fjórtán vítum sínum.

Kelly skoraði af miklu öryggi úr sinni vítaspyrnu og enska liðið vann vítakeppnina 3-2.

Eins og þetta væri ekki nóg hjá Kelly til að stela fyrirsögnunum þá var hún þegar búin að tryggja sér nokkrar áður en hún kom inn á völlinn.

Myndavélarnar voru nefnilega á Kelly þegar hún var að gera sig klára og var meðal annars að stilla af legghlífarnar sínar.

Þar fór ekki framhjá neinum að hún var með brúðkaupsmyndina sína á annarri legghlífinni. Kelly giftist Scott Moore í júlí í fyrra. Á hinni legghlífinni er hún svo með hundana sína tvo.

Þetta eru ekki fyrstu hetjudáðir Kelly á Evrópumóti því hún skoraði sigurmarkið þegar enska liðið tryggði sér Evrópumeistaratitilinn fyrir þremur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×