Lífið

Líf og fjör í Reyk­holti í Borgar­firði um helgina á Reykholtshátíð

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Listrænir stjórnendur Reykholtshátíðar 2025, Þórunn Ósk Marinósdóttir og Sigurður Bjarki Gunnarsson.
Listrænir stjórnendur Reykholtshátíðar 2025, Þórunn Ósk Marinósdóttir og Sigurður Bjarki Gunnarsson. Aðsend

Það iðar allt af lífi og fjöri í Reykholti í Borgarfirði um helgina því þar fer fram Reykholtshátíð með fjölbreyttum tónleikum og fleiri viðburðum.

Reykholtshátíð hófst í gær og stendur fram á sunnudagskvöld. Dagskrá helgarinnar er mjög fjölbreytt með fjölbreyttum hópi flytjenda.

Sigurður Bjarki Gunnarsson er annar af listrænum stjórnendum hátíðarinnar og veit því nákvæmlega um allt, sem gerist í Reykholti um helgina. En hvað er um að vera í dag, laugardag?

„Það er fyrirlesturinn hans Garðars Halldórssonar, sem byrjar klukkan 13:00 og svo eru kórtónleikar klukkan 15:00, Cantoque Semble, fyrsta flokks kammerkór úr Reykjavík og síðan eru kammertónleikar í kvöld klukkan 20:00 með prógrammi frá 20. öld, sem er orðin svona klassík í dag,” segir Sigurður.

Flytjendur á hátíð helgarinnar eru meðal annars Hallveig Rúnarsdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir og Guðrún Dalía SalómonsdóttirAðsend

Sigurður Bjarki segir að á morgun munu nánast allir flytjendur hátíðarinnar koma fram í fjölbreyttri lokatónleikadagskrá.

„Já, þá er hátíðarmessa klukkan 14:00 og þar er tónlistarflutningur og svo eru lokatónleikar hátíðarinnar klukkan 16:00 þar sem allir flytjendurnir koma fram nema kórinn og svo er bara veisla og keyrt í bæinn,” segir Sigurður alsæll með hátíðina og hvað hún fer vel af stað.

Tjaldsvæðið er rétt við Reykholt þannig að Sigurður hvetur fólk til að koma á svæðið á húsbílunum sínum, hjólhýsunum eða jafnvel með tjaldvagninn eða tjaldið og njóta dagskrár Reykholtshátíðar í leiðinni, það verði engin svikin af því.

Er eitthvað að lokum, sem þú vilt koma á framfæri ?

„Nei, bara hvetja alla til að taka sér bíltúr í sveitina og gera sér glaðan dag í Borgarfirðinum,” segir Sigurður.

Hátíðin hófst í gær en þá voru meðal annars haldnir glæsilegir tónleikar í kirkju staðarins.Aðsend

Um hátíðina og dagskrá hennar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.