Körfubolti

Gamall Stjörnumaður kemur aftur til Ís­lands og semur við Álfta­nes

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shawn Hopkins í leik með Stjörnunni tímabilið 2021 til 2022.
Shawn Hopkins í leik með Stjörnunni tímabilið 2021 til 2022. Vísir/Vilhelm

Finnski framherjinn Shawn Hopkins hefur samið við Álftanes um að spila með liðinu í Bónus deild karla í körfubolta næsta vetur.

Hopkins varð finnskur meistari með liði Seagulls frá Helsinki nú í vor.

Þetta verður ekki í fyrsta sinn sem Hopkins leikur á Íslandi, en tímabilið 2021-2022 var hann hjá Stjörnunni og varð þá bikarmeistari með liðinu. Þá skoraði hann 14,7 stig og tók 6,1 frákast að meðaltali í leik með Garðabæjarliðinu.

Þegar Hopkins var hér síðast þá var Álftanes í fyrstu deild og hafði aldrei spilað í efstu deild. Margt er breytt síðan þá og Álftnesingar hafa verið með í úrslitakeppninni síðustu tvö tímabil.

Hann fær því tækifæri til að mæta sínum gömlu félögum í Garðabæjarslag á komandi tímabili.

Hopkins á að baki fjögur góð tímabil í efstu deild Finnlands, en hann hefur einnig leikið í Rúmeníu.

Áður en atvinnumannaferillinn hófst lék Hopkins í bandaríska háskólaboltanum. Þar hóf hann leik fyrir lið Troy University en fyrir lokaárið sitt söðlaði Hopkins um og samdi við University of North Georgia, sem leikur í 2. deild NCAA háskólakeppninnar. Þar skilaði Hopkins rúmum 16 stigum, tæpum sex fráköstum og rúmum tveimur stoðsendingum í leik.

Hopkins á að baki tuttugu landsleiki fyrir Finnland og lék á sínum tíma yfir hundrað leiki með finnsku yngri landsliðunum.

Álftnes hefur verið að styrkja sig í sumar en áður hafði félagið samið við Hilmir Arnarson, sem kemur frá Haukum, Sigurður Pétursson sem kemur frá Keflavík og Ragnar Nathanaelsson sem kemur frá Hamri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×