Enski boltinn

Segir að þeir hafi notað Newcastle í pókerleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benjamin Sesko er leikmaður RB Leipzig en líklegast á förum til Manchester United.
Benjamin Sesko er leikmaður RB Leipzig en líklegast á förum til Manchester United. Getty/Ulrik Pedersen

Allt bendir til þess að slóvenski framherjinn Benjamin Sesko endi sem leikmaður Manchester United í ensku úrvalsdeildinni og kollegar þeirra í Newcastle missi þar með af enn einum framherjanum.

Það er erfitt að vera stuðningsmaður Newcastle þessa dagana því það lítur út fyrir að enginn vilji hreinlega koma til þeirra. Ofan á allt vill stærsta stjarna liðsins, Alexander Isak, fara til Liverpool.

Samkvæmt fréttum enskra fjölmiðla þá buðu bæði Manchester United og Newcastle í hinn 22 ára gamla Sesko en talað var um að tilboð Newcastle hafi jafnvel verið hærra.

Sesko hafði hins vegar valið sjálfur á milli félaganna og hann vildi frekar fara til United.

Christopher Michel er blaðamaður sem fjallar um þýsku deildina. Samkvæmt heimildum hans eru United menn að vinna kapphlaupið um Sesko.

Michel segir að RB Leipzig og Sesko hafi gert með sér heiðursmannasamkomulag um að félagið taki ásættanlegu tilboði í hann ef það sé félag sem hann vill fara til.

„Newcastle var notað í pókerleik,“ skrifaði Christopher Michel. 

Hann vill meina að Sesko og umboðsmaður hans hafi nýtt sér áhuga Newcastle til að koma málum á hreyfingum án þess að hafa nokkurn tímann ætlað að semja við liðið. Sesko vildi komast til eins af stóru liðunum í Englandi og hann telur Newcastle ekki vera í þeim hópi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×